fimmtudagur, júlí 14, 2005

Tónleikar: The Bravery, Webster Hall, NY 13. júlí 05

Stelpur dansa
Ég sá einhvers staðar að Franz Ferdinand hefðu í upphafi ætlað að búa til tónlist sem fengi stelpur til að dansa. Nú, á öllum þeim tónleikum sem ég hef séð með FF hefur lítið farið fyrir dansinum. Annað var upp á teningnum á tónleikunum með The Bravery í New York í gær. Tónleikarnir byrjuðu frekar rólega á minna þekktum lögum af samnefndri frumraun þeirra. Sam Endicott söngvari kynnti hið rólega synthesizer skotið Tyrant sem lag samið um fyrrum kærustu og nágranna sem væri líklega í salnum; eftir að þau hættu saman gat hann heyrt í henni með öðrum mönnum gegnum þunna veggi hússins. Svo tók við keyrsla. Honest Mistake fékk stelpurnar við hliðina á mér til að hrópa upp "Oh my God!", og þær byrjuðu að dansa, enda um að ræða nærri fullkomið popplag. Í kjölfarið fylgdu önnur stuðlög á borð við No Brakes og Fearless, önnur smáskífa þeirra. Þegar yfir lauk voru það ekki bara stelpurnar sem dönsuðu, Johnny Triumph hefði jafnvel dillað sér með. Þeir tóku nærri öll lögin af plötu sinni og eitt cover lag, The Black Cat með U2.
Svartur á leik
Strákarnir í The Bravery eru miklir sviðsmenn. Klæddir í svört jakkaföt og með greiðsluna í lagi, jafnvel dálítið sítt að aftan. Fötin fóru svo smám saman af þegar hitna fór í salnum. Misstu samt ekki kúlið þótt Mike H. á bassanum væri kominn úr að ofan. Frontmennirnir 3, þeir Sam, Mike og Michael Zakarin á gítar fóru hamförum og salurinn var vel með á nótunum. Þá eru ónefndir þeir John Conway á hljómborð og Anthony Burulcich á trommur. Keyrslan var vel smurð enda þeir búnir að vera á tónleikaferð um Skandinavíu að undanförnu, auk þess að hita upp fyrir U2 í Dublin. Líkt og U2 eiga The Bravery trygga aðdáendur í sinni heimaborg og fengu þeir sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð þetta miðvikudagskvöld.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home