fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Tónleikar: Fuji Rock Festival, dagur 2, 30. júlí 2005

Made in Japan
Ég átti þess nýlega kost að fara á Fuji Rock festival í Japan. Tímaskortur og aðrar ytri ástæður settu þær skorður að ég gat aðeins farið á einn dag af þrem. Fyrir valinu varð dagur 2. Þegar dagskráin er skoðuð þá má kannski færa rök fyrir því að þetta hafi verið veikasti dagurinn þar sem mörg "stærri" bönd og áhugaverðari "minni" bönd voru í boði hina dagana, en það skyldi samt ráðist í þetta. Því miður settu almenningssamgöngur frekara strik í reikninginn þannig að ekki var mögulegt að sjá hljómsveitarnar sem síðast fóru á svið, svo sem Dinasaur Jr., nema eiga það á hættu að verða innlyksa á svæðinu fram á næsta dag. Ofan á allt bættist svo úrhellisrigning, kannski viðeigandi þar sem þetta var jú Verslunarmannahelgin.
Big in Japan
Fyrsta bandið sem við sáum var Maxïmo Park á aðalsviðinu. Ég hef ekki heyrt í þeim áður en mun leggja við hlustir héðan í frá. Þeir spila frísklegt rokk, dálítið eighties skotið eins og svo mörg önnur bönd um þessar mundir. Sviðsframkoman var lífleg og náðu þeir vel til fólksins. Þá lá leiðin í Rauða tjaldið að sjá The Bravery frá NY. Ég hef áður gert skil hér að neðan tónleikum með þeim viku fyrr í NY. Bravery voru alls ekki eins góðir í þetta skipti. Söngurinn var slappur og krafturinn komst ekki nógu vel til skila. Þeir náðu þó aðeins að hita upp í liðinu þegar þeir tóku helstu hittarana. Eftir langa göngu gegnum þvögu tugþúsunda manna að því er virtist, komumst við á Hvíta sviðið og sáum Feeder. Þeir voru mjög góðir að mínum dómi. Dálítið þyngri en það sem maður á að venjast að komi frá Bretlandi, en áheyrendur voru vel með á nótunum. Maður hefur það á tilfinningunni að þessi "litlu" bönd hér að ofan hafi öll mjög trausta aðdáendur í Japan og þau hafi öll meikað það þar, enda hafa örlög margra verið að falla fljótt í gleymsku á vesturlöndum þótt vinsældirnar haldist lengur í Japan.
Turning Japanese
Gang of Four komu næst við sögu með post pönk rokk í hæsta gæðaflokki. Hrátt og kraftmikið, fyrsta flokks sviðsframkoma, einfaldar og grípandi laglínur og örlítið dansskotið á köflum. 25 árum eftir að þeir voru upp á sitt besta eru þeir aftur komnir á ferð og má segja að mörg bönd í dag séu undir áhrifum frá þeim. Þetta var toppurinn á deginum að mínum dómi. Síðastur á dagskrá okkar var svo Beck á aðalsviðinu. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið aðdáandi en heyrt í honum svona af og til gegnum tíðina. Kallinn var í fínu formi, en mér fannst prógrammið heldur undarlegt. Til skiptis voru það þekkt og dansvæn lög eins og Looser, og dönsuðu þá allir í drullunni og rigningunni, og svo allt að því tilraunakennt efni á óhefðbundin hljóðfæri sem kældi fólkið niður inn á milli. Ég hafði það á tilfinningunni að þegar hér var komið við sögu væri fólk bara að bíða eftir Fatboy Slim og hinum reivurunum og ætluði sér að djamma alla nóttina að japönskum sið. Svo japanskur er maður þó ekki orðinn og nennti ekki að standa í því. Ekki Beck heldur, enda hraðaði hann sér burt af svæðinu strax og hann hafði lokið sér af - við mættum honum á brautarstöðinni er við biðum eftir síðustu lestinni aftur til Tokyo.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home