föstudagur, febrúar 02, 2007

Badly Drawn Boy - Paradiso Amsterdam 31 janúar 2007

Þar sem ég sá fram á að missa af Pétri, Birni og Jóni á Klakanum þá voru keyptir miðar á Badly Drawn svona sem sárabætur. Hef reyndar ekki mikið hlustað á kappann síðustu árin, datt út eftir About a Boy plötuna. Náði mér þó í nýja gripinn (Born in the UK) og, jahh, ekki þykir mér hún neitt sérlega spennandi. En hann er þekktur fyrir að vera með fína díalóga milli laga þannig að það stefndi í fínt kvöld.

Strákurinn var mættur með 4 manna band og lopahúfu, einnig vænan skammt af alkóhóli í skrokknum. Hann spilaði t.d píanóstefið úr vitlausu lagi í upphafslagi tónleikana. Byrjað var á að klára nýjustu plötuna, svo tók hann lög af hinum og þessum plötum. Silent Sigh var hápunktur tónleikanna, enda af hans bestu plötu, About a Boy. Hann spilaði eflaust um 20 lög þetta kvöldið, nokkur tók hann einn á kassann með gítarnum, svo með mismörgum úr bandinu. Svo sem ekki mikið um tónleikana að segja, þetta var bara þokkalegt. Held reyndar að gaur sem stóð fremst og kom alla leið frá Birmingham til að berja strákinn augum hafi verið gríðarsáttur. Strákurinn fær 6.0.

Eftir stóra tónleika á Paradiso þá byrja yfirleitt tónleikar í minni sal í kjölfarið. Þetta kvöldið voru það Eagle Seagull sem tróðu upp. Ég fékk svona svipaða tilfinningu og þegar að ég sá Stellastarr í fyrsta skiptið við upphafstónana. Þótti þetta bara stök snilld. Í stað Amöndu var komin stúlka á rafmagnsfiðlu, svo var það Stefán Pálsson sem sá um sönginn. Alla vega einhver mjög líkur honum.
Eftir annað lagið var stefnan tekin á sölubásinn til að versla disk. Þegar þriðja lagið hafði hljómað var reyndar smám saman farið að koma í ljós að þetta var eiginlega samsull af Franz, Hot Hot Heat með vænum skammti af ætís. Óld nús. En alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt þó.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home