miðvikudagur, júlí 26, 2006

Lado oscuro de la Luna

Luna var hljómsveit frá New York. Eftir að hafa starfað í 14 ár kölluðu meðlimirnir það gott í febrúar 2005. Luna var stofnuð af gítarleikaranum Dean Wareham sem áður hafði verið í Galaxie 500. Auk hans voru Justin Harwood á bassa og Stanley Dameski á trommur. Þannig hljóðrituðu þeir fyrstu plötuna Lunapark. Sean Eden bættist svo við á gítar. Lee Wall tók við kjuðunum árið 1997 og Britta Phillips plokkaði bassann frá 1999. Þannig starfaði hljómsveitin til lokadags.

Ég var kynntur fyrir Luna af Mike, sænskum vini mínum, í árslok 2003 er við fórum á tónleika með þeim á Knitting Factory. Ég var strax heillaður af hljómsveitinni. Tónlistin er fáguð, fyrsta flokks indie rokk. Ekki spillti að hafa stelpu á bassanum, það virkar vel. 3ja plata sveitarinnar, Penthouse, telst líklega vera besta plata þeirra og ein af 150 bestu plötum 10. áratugsins að mati Rolling Stones. Bewitched er líka í miklu uppáhaldi hjá mér. Síðasta plata hljómsveitarinnar Rendezvous kom út haustið 2004 og í kjölfarið var farið í síðustu tónleikaferðina.

Nýlega kom út DVD diskur með heimildarmyndinni Tell Me Do You Miss Me sem fjallar um síðustu 6 mánuði í lífi Luna. Þeim er fylgt eftir frá því þau gefa út yfirlýsingu um að Luna sé að leggja upp laupana, fylgst er með lífi þeirra heima og að heiman, allt frá Japan til Arizona. Myndin gefur einstaka sýn inn í líf hljómsveitar sem á sér trygga aðdáendur um allan heim, getur selt 100 þúsund plötur, en hefur samt ekki náð heimsfrægð. Hún segir allt frá lélegum hótelum, sögum af fjandsamlegum áhorfendum, peningum (aðallega skort á þeim), fylleríum og eiturlyfjum, samskiptum innan bandsins og brjáluðum grúppíum, upp í einlæga aðdáendur sem komnir eru á lokatónleikana á Bowery Ballroom til að kveðja gamlan vin. Myndin er frábær innsýn inn í heim rokksins auk þess sem hún er verðugur minnisvarði um þessa einstöku hljómsveit.

Hér fylgja tvö tóndæmi í takmarkaðan tíma. Fyrst er það California (All The Way) af Bewitched og svo Astronaut af Rendezvous.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home