mánudagur, júlí 17, 2006

Hott Hott Hít

Ég fór á Siren Festival úti á Coney Island á laugar- daginn. Kannski var það blanda af spá um einn heitasta dag sumarsins (sem sem betur fer rættist ekki alveg) og andlegu áhugaleysi, en ég drattaðist ekki af stað fyrr en vel var liðið á daginn. Komst ég bara yfir að sjá tvær hljómsveitir: The Stills og Scissor Sisters.

The Stills eru enn við sama heygarðshornið. 80s skotið rokk og ról. Veit ekki hverju um var að kenna en þeir náðu fólkinu aldrei á flug. Sándið var ömurlegt, það hjálpaði ekki. Satt að segja heyrði ég varla eitt né neitt og gat því lítið dæmt um það hvernig nýja platan er. Man satt að segja ekki mikið af þeirri fyrri, svo það var kannski líka ástæða fyrir því að mér stóð á sama. Gef þeim 2 af 5 stjörnum.

Scissor Sisters var næst. Þeim hefur ekki vegnað líkt því eins vel í Bandaríkjunum eins og í Evrópu, en þau eiga samt dygga aðdáendur í sinni heimaborg, ekki síst meðal homma og lesbía sem fjölmenntu. Til að byrja með var prógrammið eitt gamalt, eitt nýtt, gamalt, nýtt, o.s.frv. Fólkið dansaði og söng með gömlu lögunum en nýja efnið fór ekki eins vel niður. Sumt af því var algjörlega öðruvísi og hálf bizzare, t.d. revíutónlist með hringekjuhljóðum og allt (sem þó var kannski viðeigandi á svona tívolísvæði). En annars hafði maður það á tilfinningunni að þau væru að endurgera fyrri plötuna, bara með veikara efni. Popplagið var þarna, diskólagið, teknólagið og ballaðan. Allt bara hálfu númeri verra en það gamla. Ég mun alla vega ekki halda í mér andanum þangað til nýja platan kemur. Gef þeim samt 3 stjörnur af 5 fyrir þennan konsert.

Að auki heyrði ég óminn af She Wants Revenge. Satt að segja var ég ekki viss hvort þetta væru í raun þeir, eða hvort DJinn væri að spila Depeche Mode, svo líkt var það. Það sem ég sé eftir var að fara ekki að sjá Stars. En það er ekki hægt að sjá allt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home