miðvikudagur, maí 17, 2006

Joanna Newsom & Smog & Slowblow í Fríkirkjunni.

Í gærkvöldi voru fyrri tónleikar Joanna Newsom haldnir í Fríkirkjunni. Fríkirkjan er frábær tónleikastaður fyrir rólega stemmingartónlist eins og Anthony & The Johnsons sýndu fyrir nokkrum mánuðum, og þau sem spiluðu þarna í gær undirstrikuðu rækilega hversu skemmtilegur þessi staður er. Kvöldið byrjaði á Slowblow. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef séð Slowblow spila og ég hef ekki hlustað mikið á þá, en þar sem ég hef heyrt mikið gott um þetta band þá var ég með miklar væntingar. Þeir brugðust þeim væntingum ekki, mjög skemmtilegt sett með strengjasveit undir og menn að skiptast á hljóðfærum milli laga.

Næstur á svið var Smog. Bill Callahan birtist þarna með gítarinn sinn, sat og söng með sinni snilldarrödd (sem passar engan vegin við útlitið á honum...) og heillaði kirkjugesti. Hann tók mörg af sínum skemmtilegri lögum með áherslu á lög frá Knock Knock, Dongs of Sevotion og nýju plötunni A River Ain't Too Much To Love. Þau lög sem tóku sig hvað best út voru lögin dress sexy at my funeral, the well og lokalagið cold blooded old times.

Joanna Newsom birtist næst sem lítið blóm með hörpuna sína (...eða hörpuna hennar Katie sem var fengin að láni...) og hvíslaði ljúft takk í hljóðnemann. Síðan hóf hún upp raust sína og söng eins og breima kattarengill. Röddin hennar hefur verið (ásamt hörpunni) það sem aðskilur hana hvað helst frá öðrum tónlistarmönnum og það var gaman að sjá að röddin hennar nýtur sín betur á sviði heldur en á disknum. Hún er með frábæra og sérstaka rödd sem naut sín vel á þessum stað. Joanna spilaði 2-3 ný lög, þar á meðal eitt sem hefur hingað til kallast "langa nýja lagið" af mörgum sem hafa séð hana spila nýlega. Hún spilaði og söng af mikilli innlifun og gleði sem skilaði sér rækilega út í salinn.

Eini gallinn á þessum tónleikum var sá að þegar dyrunum var lokað þá varð gríðarlega heitt og loftlaust þarna inni, með betri loftræstingu hefðu þessir tónleikar verið fullkomnir og fríkirkjan sem tónleikarstaður væri hiklaust sá besti fyrir þá tónlist sem spiluð var þarna í gærkvöldi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home