fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Belle vs. Isobel


Fyrrum samstarfsfólkið í Belle and Sebastian og Isobel Campbell gáfu bæði (öll) út nýjar plötur sama dag í byrjun febrúar. Plata Belle heitir The Life Pursuit og plata Isobel heitir Ballad of Broken Seas. Þó svo hér sé kannski ekki um eiginlegt Battle of the Bands að ræða, er upplagt að fjalla um plöturnar tvær í sömu mund enda komnar af sama meiði.

Belle and Sebastian þarf líklega ekki að kynna. Þessir viðkunnalegu Skotar halda upp á 10 ára samstarf sitt um þessar mundir. Nýjasta platan þeirra er líklega sú sem beðið hefur verið eftir með mestri eftirvæntingu. Eftir ágætis gengi Dear Catastrophe Waitress eru þau enn við sama heygarðshornið en hafa vissulega haldið áfram að þróast. Þau eru ekki lengur í rólega einlæga folk-poppinu sem einkenndi þau í fyrstu, heldur komin yfir í hreinræktað gleðipopp. Greinilega á að freista þess að ná eyrum almennings sem hingað til hefur fúlsað við þeirra gersemum. Þessi plata er því full af trukki og dífu, jaðrar við fönki á köflum og seventís fílingurinn er í hávegum hafður. Ágætis framtak hjá þeim í alla staði. En samt er ég hræddur um að enn verði þau að bíða eftir þeirri viðurkenningu sem felst í góðum viðtökum tónlistarkaupenda, ekki bara gagnrýnenda.

Isobel á hinn bóginn hefur tekið allt annan pól í hæðina. Ég held hún sé ekki einu sinni að reyna að vera kommersíal, allt að því að reyna að vera antí-kommersíal. Eftir að hún yfirgaf Belle and Sebastian gaf hún út fyrstu sólóplötu sína Amorino árið 2003. Sú plata innihélt líklega 13 tónlistarstefnur í 13 lögum, allt frá dixíland til kántrís. Í þetta skiptið er það nær eingöngu kántríið sem hún fæst við ásamt Mark Lanegan, djúprödduðum sveitasöngvara sem með söng sínum allt að því fær hár manns til að rísa. Isobel fellur hins vegar betur flest annað en söngur. Það verður að segjast eins og er, Mark skyggir algjörlega á Isobel. Eftir nokkrar hlustanir er maður eiginlega farinn að óska þess að hún hefði ekkert haft sig frammi í söngnum, heldur léti Mark alfarið um það. Ég held að þessi plata verði eingöngu keypt af hörðum aðdáendum og svo nokkrum forvitnum, eins og mér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home