föstudagur, janúar 06, 2006

New York, London, Paris, Munich

Ritstjórn músarinnar magnúsar kom saman milli jóla og nýárs og spilaði hið ágæta spil Popppunkt. Að þessu sinni var keppnin jafnari en nokkru sinni og margar níðþungar spurningar steinlágu. Popppunktur er fyrirtak til að rifja upp gamla hluti sem maður hafði gleymt eða ekki hugsað um í mörg ár. 2 spurningar um þá ágætu hljómsveit M og lagið Pop Muzik fékk hug minn til að reika mörg mörg ár aftur í tímann. Ég vissi samt ekkert um M nema þetta eina lag. Ég ákvað því að kynna mér málið.

M er afkvæmi breska listamannsins Robin Scott. Saga hans er um margt mjög áhugaverð. Hann kynntist Malcolm MacLaren í lok sjöunda áratugarins, var boðið að koma að rekstri búða hans (sem áttu sinn þátt í sögu Sex Pistols), en hafnaði til að sinna eigin listaferli. Næstu árin vinnur hann að ýmsum verkefnum, semur m.a. rokksöngleik og starfar við upptökustjórn. Árið 1979 sendir hann frá sér lagið Pop Muzik undir nafninu M. M er tilvísun í M merkið á Metro stöðvum Parísar, þangað hafði Scott flutt nokkru áður og bjó með Brigit Novik, franskri söngkonu sem söng bakraddir í Pop Muzik. Pop Muzik var í senn framúrstefnuleg rafeindatónlist fyrir þann tíma og fullkomið popplag. Textinn var hálfgert rugl sem allt að því spáði fyrir um eigin vinsældir: New York, London, Paris, Munich - Everybody's talking about (M) Pop Muzik. Lagið varð enda geysilega vinsælt beggja vegna Atlantshafsins, komst m.a. í annað sæti breska vinsældarlistans. Í kjölfarið kom platan New York, London, Paris, Munich. M hélt áfram að senda frá sér smáskífur og breiðskífur, en með litlum árangri. Ævintýrið stóð stutt og má segja að hafi endað með 4. plötunni sem útgáfufyrirtækið ákvað að gefa ekki út í Bretlandi, en hún kom þú út víða annars staðar. Endurbreytt útgáfa Pop Muzik komst aftur á vinsældarlistana árið 1989, en sú útgáfa hefur ekki þótt standast tímans tönn eins og upprunalega útgáfan hefur gert. Árið 1997 notaði U2 Pop Muzik til að opna Popmart tónleikaferð sína sem aftur vakti athygli á M, en lítið hefur farið fyrir M síðan. Robin Scott er enn að vinna að tónlist, hefur m.a. gert plötu með afrískum tónlistamönnum og unnið með dóttur sinni sem er söngvari.

Í gegnum tíðina spiluðu ýmisir áhugaverðir listamenn á plötum M. Þar á meðal Phil Gould, sem síðar varð trommari Level 42 sem þá hafði ekki enn verið stofnuð. Hann kynnti einnig vin sinn Mark King, bassaleikara og söngvara Level 42, fyrir Robin Scott. Þeir tveir héldu áfram að spila inn á plötur M jafnvel eftir að Level 42 voru sjálfir orðnir vinsælir. Þá spiluðu einnig nokkrir meðlimir Yellow Magic Orchestra inn á einhverjar plötur, en
Scott hafði áður pródúserað ásamt öðrum plötu með Ruichi Sakamoti, sem síðar varð þekktur sem forsprakki YMO. Af öðrum sem komu við sögu má nefna Adrian Below gítarleikara David Bowies, Thomas Dolby hljómborðsgúru, Andy Gill gítarleikara Gang of Four og Bowie sjálfan, en hann var um tíma nágranni Scott í Montreux Sviss og ljáði nokkur handklöpp á fyrstu plötu M.

Pop Muzik má finna hér í takmarkaðan tíma

M.a. bygg á http://www.nexus-pt.com/intermission/histfact.htm

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home