fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Jools Holland vs. Magga Stína

Later með Jools Holland er tónlistarþáttur sem er á dagskrá BBC 2 sjónvarpsstöðvarinnar í Bretlandi*. Það er athyglisvert að bera hann saman við annan tónlistarþátt í íslenska Ríkissjónvarpinu, Hljómsveit Hússins sem stýrður er af Möggu Stínu. Samanburðurinn leiðir í ljós hvernig þessi miðlar líta á það hlutverk að kynna tónlist á gjörsamlegan ólíkan hátt.

Later er þannig uppbyggður að allt að 5 til 6 mismunandi flytjendur koma fram í klukkustundar löngum þætti. Yfirleitt eru í hverjum þætti eitt eða tvö stór númer auk fjölda annarra minni spámanna. Þannig notar Jools Holland aðdráttarafl þeirra stóru til að koma á framfæri annars konar tónlist, tónlist sem er framandi, fersk, lítið þekkt en á fullan rétt á að hljóma. Allir fá að koma fram, bæði popparar, rokkarar, heimstónlist, raggí, ska eða þjóðlagasöngvarar, hljómsveitir eða sóloistar, sem dæmi. Hljómsveit Hússins tekur minni sénsa. Þar er yfirleitt hoggið í sama knérunn. Ein hljómsveit eða flytandi fær þar allan þáttinn til umráða. Þessi flytjandi þarf að falla sem flestum í geð, engin jaðar tónlist fær þar að hljóma. Þannig gefur þetta fyrirkomulag ekki möguleika á að minna þekktir flytjendur eða efni sem kannski ekki höfðar til allra fái hljómgrunn, þó ekki væri nema augnablik.

Í síðasta þætti Later var aðal númerið hann Robbie Williams ásamt Steven "Tin Tin" Duffy (sem kom mér persónulega á óvart, talandi um fordóma). Þá voru KT Tungsall og Newcastle rokkararnir í Maximo Park áberandi, bæði hafa verið að vekja á sér athygli að undanförnu. Einnig voru þar Cheikh Lo, Mattafix and Vashti Bunyan. Í þættinum þar á undan var aðalnúmerið Arctic Monkeys, splunkuný rokksveit skipuð ungum strákum sem þá vikuna áttu topplagið í Bretlandi, auk dívunnar Ms. Dynamite, dansfönkurunum í Mylo, mexikönsku sveitinni Los De Abajo (með frábæra útgáfu af The Lunatics Have Taken Over the Asylum), Joseph Arthur og Lizz Wright. Stundum er Jools þó ekki að spara það. Næsti þáttur er t.d. hlaðinn stórkanónum á borð við Paul Weller, Santana, Sheryl Crow og John Cale úr Velvet Underground, auk Sigur Rós og Bettye Lavette.

Hljómsveit Hússins skal þó telja til hróss að Mugison verður gestur hennar á laugardaginn. Þá hafa einnig Trabant og Hjálmar heiðrað þáttinn með nærveru sinni. En það eru að koma fram vísbendingar um að þátturinn verði litaður af plötukynningum fram að jólum, sbr. Helga Björns um síðustu helgi. Veðbanki M.M. telur yfirgnæfandi líkur á að Nylon og Jónsi verði meðal gestahljómsveita hússins fyrir jól, en telur afar ósennilegt að við sjáum Jakóbínarínu, Mr. Silla, Nilfisk, Búdrúgindi, Ghostdigital, Skáta, Brúðarbandið, Reykjavík!, Singapore Sling, Hermigervill eða Rass, allt íslenskir flytjendur sem spiluðu á Iceland Airwaves og fyrir vikið eru farin að vekja athygli á sér erlendis en eru ennþá tiltölulega óþekkt hérlendis, þó full ástæða væri til annars. Magga Stína gæti þó telft djarft og fengið Benna Hemm Hemm eða Apparat í þáttinn, þeir eru á mörkunum að vera mainstream en samt óvenju kenjóttir (sbr. hvernig hún kynnti Trabant).

En það eru svo sem ekki bara Íslendingar sem hunsa við eigin listamönnum. Það hafa orðið örlög margra bandarískra flytjenda að skapa sér fyrst nafn í Bretlandi, helst að minnast White Stripes sem mun trylla landann báðum, ekki síst fyrir áræðni og víðsýni starfsmanna BBC eins og Jools Holland og John Peel. Magga Stína veit það kannski kvenna best að ekki eru allir spámenn í sínu eigin föðurlandi.

* Hægt er að ná BBC stöðvunum á Íslandi með áskrift að Val+ eða með gerfihnattabúnaði, þá er kostnaður frá 20 þúsund auk uppsetningar en engin mánaðarleg gjöld

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home