fimmtudagur, október 27, 2005

Músíkkvöld í Uppsölum


Á móti hótelinu hérna er þessi líka fíni tónleikastaður. Brugðum okkur þarna inn til að næla okkur í bita matar. Brátt fylltist staðurinn af fólki og það kom sem sagt í ljós að sænsku ofurrokkararnir í Hellacopters voru mættir á svæðið. Rámaði eitthvað í nafnið, eitthvað indí lófí undergránd dæmi, minnti mig. Því var ekki laust við að nokkur spenna tæki að gera vart við sig í búknum. Fengum síðustu miðana.

En úff. Þessar lófíminningar ekki alveg réttar. Þarna voru komnir pungarokkarar andskotans. Rokkabillípíanó, vælandi gítarsóló og sítt hár. Svíarnir í salnum voru reyndar að fíla sig í botn. Mikið sungið með og rokkað í takt. Samflotsfólk mitt gafst upp eftir nokkra slagara, sjálfur ákvað ég að halda þetta út aðeins lengur. Kom reyndar á daginn að þetta varð betra með hverju laginu og stóð ég sjálfan mig að haushristingum undir lokin. Já, reyndist bara ágætis skemmtun.

Ekki var nú sænska rokkið búið að syngja sitt síðasta þetta kvöldið. Römbuðum inn á Fredmans og sáum sveitina The Matlocks. Hmm. Þeir voru bara þokkalegir, smá NY í bland við sænskt pönk. Sei sei. Reyndar alltaf gaman að heyra eitthvað nýtt, þó að ferskleikinn sé kannski ekki til staðar.

Eða eins og Hellacopters segja: ALL PUNK MUST ROCK - ALL ROCK MUST PUNK!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home