föstudagur, september 30, 2005

Pæling: Hringnum lokað

Ég man þegar ég fékk minn fyrsta CD spilara fyrir margt löngu. Það er svo langt síðan að þeir voru enn ekki kallaðir geislaspilarar, það nafn varð ekki til fyrr en seinna þegar markaðsmenn Nesco á Laugarvegi fundu upp á því ágæta heiti. Samstundis voru skífurnar sem þessi tæki spiluðu kallaðir geisladiskar.

Geisladiskavæðing landans fór afar hægt af stað. Eftir að ég eignaðist minn spilara þurfti ég að fá mér geisladisk til að spila í honum, það gaf auga leið. Leið mín lá í Fálkann á Laugarvegi, þar sem nú er kaffihús Te og Kaffis. Sú búð var smekkfull af LP vínyl plötum en við afgreiðsluborðið lá lítil plastmappa með nokkrum innslögum úr þeim geisladiskum sem þeir höfðu á boðstólnum. Eflaust ekki meira en svona 100 stykki.

En þessi staða varði ekki lengi. Það tók landann ekki langa tíma að uppgötva kosti geisladiskanna og áður en nokkur vissi af voru allar plötubúðirnar orðnar að geisladiskabúðum. Útgáfa LP platna hætti nær alveg og allir keyptu geisladiska. Hljómtækin breyttust með. Þar var ekkert pláss fyrir plötuspilara. Upp var komin ný kynslóð ungs fólks sem hafði bara séð LP plötur í gömlum bíómyndum.

En vínyllinn var ekki dauður þrátt fyrir að almenningur hafi snúið við honum baki og nú er svo komið að hann er í stórsókn. Að vísu er hlutdeild hans á markaðinum míkróskópísk ennþá. Hvað er það sem veldur? Að einhverju leyti held ég það sé nostalgíja. En einnig er seindrepinn sá orðrómur að geisladiskar geti aldrei hljómað eins vel og vandlega pressuð LP plata í góðum hljómtækjum. Margir eru því að dusta rykið af gamla spilaranum eða kaupa sér nýja plötuspilara, gamlar plötur dregnar fram og nýjar keyptar. Plötuútgáfa hefur ekki verið jafn öflug í mörg ár og allt það helsta af nýju efni er fáanlegt á LP plötum í dag.

Ég leit inn í Skífuna á Laugarvegi um daginn, ekki langt frá þar sem Fálkinn var í gamla daga. Við hliðina á afgreiðsluborðinu var kassi með nokkrum LP plötum. Eflaust ekki meira en svona 100 stykki. Það má því segja að hringnum hafi verið lokað á vissan hátt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home