þriðjudagur, september 27, 2005

Ekkert að þakka

Nú eru liðnar rúmar 2 vikur frá því Takk, 4. plata Sigur Rósar kom í verslanir og þar með fyrir eyru fjölmargra, þar á meðal undirritaðs. Ég var sem sagt ekki einn af þeim sem höfðu náð sér í sjóræningjaeintak af plötunni á vefnum og tekið þannig forskot á sæluna. Þeir sem það höfðu gert mærðu plötuna slíkt að ég var orðinn verulega spenntur. Plötudómarnir sem birtust þessa fyrstu daga voru líka allir á einn veg, þ.e.a.s. í íslenskum fjölmiðlum. 5 stjörnur trekk í trekk. Var hér um að ræða sannkallað meistarastykki?

Nei.

Við fyrstu hlustun hljómaði þetta svo sem ágætlega. Þálítið eins og Ágætis byrjun og minna eins og ( ). Það var þó alla vega kostur. Lagasmíðar mjög kunnuglegar: byrja rólega, svo rosa stuð í millikaflanum og enda hægt og hljótt. Styttri lögin einhæfari og sungin í falsettu. Þetta hljómaði meira og minna allt eins. Ekki heyrði ég betur en sungið væri á íslensku, svona framan af, enda er það besti partur plötunnar. Ég er samt enn á því að eitthvað sé sungið á Hoplandish þegar á líður, því óskiljanlega máli. Það er kannski villandi að tala um texta og tungumál í því samhengi því söngurinn er meira notaður eins og sólógítar, leiðir laglínuna í endalausu góli og umhverfishljóðum sem virðast ekkert stefna nema að 7 mínútna markinu. Ég fæ alltaf á tilfinninguna að þetta sé svona eins og í upphitun hjá Sinfoníunni, bíð bara eftir að hljómsveitarstjórinn lemji taktsprotanum í statífið og þeir byrji að spila almennilega.

Við aðra hlustun var þetta eins, nema ekki eins spennandi. Eftir því sem lengra líður á ég erfiðara og erfiðara með að fá mig til að hlusta á plötuna. Hún er samt ekki alvond. Sumt er næstum jafn gott að það besta sem Sigur Rós hefur áður gert. Þetta hefði getað orðið frábær EP plata.

Ég bíð samt spenntur eftir að komast á tónleika með þeim, enda er það reynsla mín að tónlist Sigur Rósar kemst miklu betur til skila "live" heldur en á plötu. Það þarf sérstaka stemningu til að hlusta á Takk og hana er erfitt að galdra fram heima í stofu.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég hef reyndar ekki hlustað á plötuna enn í heild sinni en hef einmitt haft á því orð að maður er orðin hálf leiður á þessu "góli". Gef þeim þó smá séns en hef ekki neitt sértaklega góða tilfinningu fyrir þessari plötu, ekkert svona hoppandi spennt...

16:38  
Blogger Pallason said...

Hmm já. Er að fara að kíkja á drengina spila í næstu viku. Platan hefur glatt eyru mín nokkuð, bíð í ofnæmi eftir tónleikunum.

00:28  

Skrifa ummæli

<< Home