fimmtudagur, september 22, 2005

Sögustund: hvað við lærðum af dönsku einokunarkaupmönnunum

Gamalt og myglað mjöl. Dönsku einokunarkaupmennirnir töldu það væri nógu gott í Mörlandann. Rokseldist. Enda var ekkert annað mjöl að fá.

Það mætti halda að þannig hugsi tónleikahaldarar á Íslandi enn þann dag í dag. Hvað er með þetta að bjóða Landanum bara upp á gamla úrelda kalla og kellingar þegar kemur að því að plana "stórtónleika" á Íslandi?

"Stórstjörnur" eins og Michael Bolton, Van Morrison, Joe Cocker, Beach Boys og James Brown hljóta að hlæja sig máttlausa. Þessir menn sem hafa sætt sig við það að spila fyrir fámenni á litlum klúbbum í milljónaborgum eins og New York, London, París og Munchen koma til Íslands og selja grimmt á "stórtónleika" á landi sem er með álíka marga íbúa og þeir geti vænst að selja nýjustu plötuna sína til á heimsvísu, og þætti það gott. Þar að auki selst hver miði á ofurverði sem á sér enga hliðstæðu. Ég sé fyrir mér að það sé til leyniklúbbur þar sem allar þessar "stórstjörnur" koma saman og hvíslast sín á milli um þessa gullnámu sem heitir Ísland og Leynibankann þar sem geymi feita innistæðureikninga fyrir fallnar "stórstjörnur". Umboðsmaðurinn samstundis tekur upp símann og hringir í Hr. Örlát sem stekkur á þetta "stórkostlega" tækifæri að færa Landanum þennan "heimsviðburð", því Landinn tekur hverju sem er til að seðja hungrið, bara eitthvað, þess vegna gamalt og myglað mjöl því það er ekkert annað að fá.

Svo er hringt í Moggann og tryggt að vel sé fylgst með komu "stórstjörnunnar" til landsins, hringt í hana á undan og birt heilsíðu "einkaviðtal" þar sem "stórstjarnarnan" lofar náttúru landsins og afsakar að hafa ekki komið ca. 20 árum fyrr (lesist: vissi ekki um Leynibankann fyrr en nú). Læt FM pumpar út öllum gömlu slögurunum í síbylju svo fólk sem var löngu búið að gleyma því að þessar "stórstörnur" voru einhvern tíma til fara allt í einu að trúa að hér sé um virkilegan heimsviðburð að ræða. Og svo kemur þessi gullna setning: "enn til örfáir miðar í kvöld" (lesist: við erum í vandræðum með að selja síðustu 3000 miðana). Læt FM er sett í yfirgír, saumaklúbbarnir virkjaðir og Mogginn fullkomnar samsærið með því að birta frétt næsta dag um að "stórstjarnan" hafi spilað hörku tónleika "frammi fyrir fjölda áhangenda sinna hér á landi". Það er allt gert til þess að þeir sem ekki fóru fái samviskubit og lofi sjálfum sér að mæta þegar næsta "stórstjarna" mæti á Klakann (lesist: leysir út innstæðuna sína í Leynibankanum). Það hafðist nú sem fyrr.

Og Hr. Ölátur hugsar með sér að á meðan gamla myglaða mjölið rokseljist er engin ástæða til að prófa að selja eitthvað ferskt og framandi, sem er ekki alveg meinstrím en er verulegt krydd í tilveruna. Í besta falli einhverjir kverúlantar sem muni kaupa það í litlu magni, ekkert upp úr því að hafa. Og þó, ef þeir slysast til að flytja inn einn ferskan rétt sem selst er sá réttur borinn fram aftur og aftur. Fjölbreytni, hvað er það? Nei, gullna reglan er sú að því meiri mygla, því meiri gróði, og allir eru ánægðir. Ekki satt?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home