sunnudagur, september 11, 2005

Tónleikar: Idlewild og Bloc Party

Ég var í New York í síðustu viku sem oftar og komst á tvenna tónleika.

Idlewild, Irving Plaza, 7. sept
Skosku rokkararnir í Idlewild eru í einhvers konar tilvistarkreppu. Fjórða plata þeirra, Warnings/Promises, kom út í Bandaríkjunum sl. þriðjudag og daginn eftir sá ég þá á Irving Plaza. Ég hafði reyndar keypt þessa plötu fyrir allmörgum mánuðum enda kom hún út í Evrópu í Mars. Mörgum finnst þeir hafa fjarlægst uppruna sinn á þessari plötu, minna rokk en meira MOR. Útlitið hefur líka breyst. Roddy Woomble er kominn með slétt sítt að aftan og yfirvaraskegg. Hann lítur út fyrir að koma beint af settinu í Boogie Nights þar sem hann hefði smollið inn í hlutverk sem statisti í 70s klámmynd. Það var erfitt að gera sér grein fyrir hvað hann var að hugsa þegar hann horfði yfir salinn með hálf smeðjulegu glotti. Var hann að hugsa hvað hann elskaði Rock'n'Roll eða var hann að spá af hverju salurinn var rétt rúmlega hálffullur. Fyrir 2 árum ritaði New York Times grein um Idlewild þar sem þeir sögðu það hálgerðan glæp að þeir væru ekki með stærstu hljómsveitum í heimi. Þá áttu þeir ekki í vandræðum með að fylla Irving 2 kvöld í röð. Harður kjarni aðdáenda lét það sig þó engu skipta. Þeir keyrðu í gegnum slatta af nýja efninu og það ágætlega. En það voru samt lög eins og Rosability og American English sem kveikti í fólkinu enda góðir rokkarar og minnismerki um hvað þessi hljómsveit stóð fyrir þegar þeir voru á þröskuldi frægðarinnar, sem aldrei kom.

Block Party, Roseland Ballroom, 9. sept
Bloc Party er hinsvegar á fullri ferð í átt að heimsyfirráðum. Þrátt fyrir stærðina á Roseland náðu þeir að skapa góða stemningu með kraftmikilli keyrslu og pottþéttu sándi. Fyrirfram hafði ég búist við að þeir keyrðu í gegnum einu plötuna sína og þetta tæki um klukkutíma. En alldeilis ekki. Þeir tóku tvö ný lög sem ef eitthvað er voru betri en það sem er á Silent Alarm, þróaðri, flóknari og þroskaðri. Held að þeir geti alveg toppað sig á plötu númer 2. Eftir 45 mínútur fóru þeir af sviðinu, komu svo aftur og tóku 4 uppklappslög. Þegar fólkið fór svo að streyma út komu þeir aftur á sviðið öllum á óvörum og tóku enn eitt lag. Hef aldrei orðið vitni af því áður í New York. Eina sem ég hef út á að setja var að þeir kröfðust þess að tónleikagestirnir klöppuðu með a.m.k. þrisvar (það fer alltaf svona pínulítið fínt í mig, minnir mig á sveitaböll með Stuðmönnum í gamla daga og Valgeir kallandi "Er' ekki allir í stuuuþi"). Ekki það að salurinn þyrfti áminningu um að taka vel undir enda sviðsframkoman, krafturinn og tónlistin ein og sér fullfær um að rokka lýðinn. Trommarinn fær þó auka stjörnu enda þéttur með afburðum.

p.s. fyrir Block Party hituðu upp The Kills. Því miður misreiknaði ég tímasetningarnar hjá Roseland og sá aðeins síðasta lagið með þeim og mun því ekki dæma það sérstaklega.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home