fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Pæling - Victim of own success?

Nú þegar um vika er í tónleika Franz Ferdinand gæti mér varla staðið meira á sama. Fyrir rúmlega ári síðan sá ég þá í 3ja skipti á nokkrum mánuðum. Þeir voru þá orðnir að stóru bandi, höfðu farið úr Bowery Ballroom yfir í Roseland á 6 mánuðum, sá síðarnefndi staður rúmar allt að 10 sinnum fleiri en sá fyrrnefndi. Ég sá þá svo í sjónvarpinu á sunnudaginn þar sem þeir voru að spila á V-Festival fyrir utan London þann sama dag. Mikið fannst mér þeir vera þreyttir. Spilagleðin frá Bowery var ekki til staðar og þeir voru eins og álfar út úr hól þegar þeir spiluðu lag með glyspoppurunum í Scissors Sisters. Nýja lagið þeirra, Do you want to, er líka ansi þreytt.

Ætla Franz Ferdinand að verða aðrir Coldplay? Það gerist eitthvað í höfðinu á indie böndum þegar þau verða vinsæl meðal hins almenna popp hlustanda, eitthvað verulega vont. Það er höggið í sama knérunn til þess að fæla ekki hlustendurna frá, jafnvel poppað aðeins meira upp. Frjósemin víkur fyrir formúlunni. Jú víst er hægt að selja bílfarma af plötum fyrir vikið, en hlustendur eru ekki fífl til lengdar. Þessar hljómsveitir eru dæmdar til að falla hratt í gleymskunnar dá, en munu þó halda áfram að senda frá sér efni sem aðeins hinn harðast kjarni kaupir. Öðrum stendur á sama.

Ég er ansi hræddur um að Franz Ferdinand séu að nálgast síðasta söludag. Það er þó vonandi að þeir hafi ennþá eitthvað spennandi að sýna mér og öðrum Íslendingum í næstu viku. En það verður aldrei aftur eins og í fyrsta skiptið.

1 Comments:

Blogger Pallason said...

Ég gæti ekki verið meira sammála. Hef þó verið að dilla mér við nýjasta smellinn, jafnvel sönglað með. Du du du du dudududu.

09:30  

Skrifa ummæli

<< Home