sunnudagur, október 09, 2005

Sigur Rós í skál ...


... hollívúdd skál. Miðvikudaginn 5. okt mættu drengirnir í Sigur Rós til Hollívúdd til að halda gigg. Eftir að hafa séð bandið nokkuð oft þá var eftirvæntingin kannski ekki mikil.

Tónleikarnir voru haldnir í Hollywood Bowl þar sem setið er úti, meira segja hægt að taka með sér áfenga drykki, vínber og oststykki, eitt eða tvö. Flottur staður. Við fengum sæti í stúku sem var á snilldarstað, framarlega fyrir miðju. Í kringum okkur sátu svo um 8 þúsund manns. Gaman að geta þess að í litla hópnum okkar var m.a. kærasta Anthony
Kiedis, heitu piparsöngpípunnar. Lítill þessi heimur alltaf. Alla vega, hér var spennan orðin nokkuð mikil, og það nánast trylltist allt þegar þeir gengu á svið. Þeir byrjuðu á Göng sem þeir spiluðu fyrir aftan stórt hálfgegnsætt tjald. Svo var tjaldið fellt og við tóku bestu tónleikar sem að ég hef séð með drengjunum. Man alltaf eftir fyrsta skiptinu sem að ég sá þá, gæsahúð og geðshræring, eins og vill oft verða með fyrsta skiptið. Veit kannski ekki með gæsahúðina. En þetta var langtum betra en fyrsta skiptið, ótrúlega þéttir og hljómurinn eins og hann gerist bestur.

Þeir tóku lög af síðustu þremur plötunum, hápunktarnir voru margir en Hoppaipolla, Ny Batteri, Lag 8 og síðast en ekki síst Hafsól sem er alveg hreint ótrúlegt stykki, stóðu upp úr. Tónleikarnir enduðu svo á sama hátt og þeir byrjuðu, tjaldið dregið fyrir og rokkað út í nóttina. Tónleikarnir fá fullt hús stiga. Og já, takk fyrir mig.

Eftirpartýið var fínt, Ron Jeremy mætti á svæðið og var hinn hressasti. Hreint ótrúlega perralegur náungi. Við stoppuðum reyndar ekki lengi við, tveir ölbjórar og heim í kotið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home