föstudagur, október 28, 2005

I Hate Scotland *

Franz Ferdinand, Belle and Sebastian, kannski Trashcan Sinatras...... Og já, Sean Connery, Sir Alex Ferguson og Rod Stewart. Þetta er líklega það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá mörgum þegar það er beðið að nefna skoskar hljómsveitir eða fræga Skota. Sannarlega glæsileg uppröðun, þó ekki sé hún löng.

Ég ætla að leyfa mér að bæta við einu nafni sem þið skuluð setja á minnið, ballboy.

ballboy er fyrst og fremst gítarleikarinn, söngvarinn og textasmiðurinn Gordon McIntyre. Undir vinnuheitinu ballboy er hann að auki með Nick Reynolds á bassa, Alexa Morrison á hljómborð og Gary Morgan á slagverk. Lagasmíðarnar eru einfaldar en grípandi, hálfgert þjóðlagapopp. Fyrsta platan Club Anthems er öll mjög einföld í útsetningum, oft bara spiluð á gítar, á meðan önnur platan A Guide for the Daylight Hours er meira fullunnin, fyrirtaks indie popp. Hún er líklega aðgengilegasta platan fyrir byrjendur. Síðustu 2 plöturnar, The Sash My Father Wore and Other Stories og The Royal Theatre eru svo að vissu leyti afturhvarf til einfaldleikans.

En það eru fyrst og fremst textarnir sem gera ballboy svo skemmtilegan. Lagaheitin gefa strax fyrirheit um það, t.d. I Lost You but I Found Country Music og I Wonder if You are Drunk Enough to Sleep With Me Tonight. Textarnir eru ekki þetta venjulega popp, heldur hnittnir og glúrir, oft um samskipti við stelpur, hvort heldur til að öðlast sjálfstraust til að tala við þær eða þá gefa skít í það eftirá af hverju þær vildu ekkert með hann hafa. Alla texta ballboy auk nokkurra tómdæma má finna á síðu sveitarinnar, svo allir ættu að geta kynnt sér ballboy upp á eigin spítur.

Nú heyrast þær fréttir að Gordon McIntyre sé að koma með sólóverkefni sem hann kallar ++Money Can't Buy Music. Hér kveður við annan tón. Þetta er elektrónísk tónlist með ljóðalestri, held það skýri það best. Upplýsingar eru enn af skornum skammti þó, fylgist með hér á Músinni Magnús.

* Þess ber að geta að titillinn á þessum pósti er samnefndur einu laginu á Club Anthems. Höfundur þessarar greinar ber engan kala til Skotlands, nema síður sé.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home