miðvikudagur, desember 07, 2005

Tónleikar: Webster Hall, NY, 5. des 2005

Það var með nokkurri eftirvæntingu sem ég fór á Webster Hall á mánudagskvöldi. Hljómsveitirnar Calexico og Iron and Wine höfðu sameinast um tónleikaferð. Það hafði líka fréttst að þetta kvöld yrði ákveðinn leynigestur. Vildi ég ómögulega missa af honum, því mætti ég tímanlega. Meira um leynigestinn síðar.

Calexico voru fyrst á svið eftir hillbillies upphitunarband frá New York. Tónlist þeirra er mjög áhuaverð blanda af suðrænum áhrifum, amerísku kántri og indie hljómum. Tóku þeir nokkur lög af eldri plötum sínum og einnig nýrri lög. Nýrri lögin skáru sig nokkuð úr fyrir að vera rokkaðri, enginn stálgítar eða trompetar. Af eldri lögunum var eftirminnilegast gamla Love lagið Alone Again Or, í frábærri útsetningu. Þeir enduðu svo á Guero Canelo af Feast of Wire plötunni í frábærri langri útgáfu þar sem meðal annars Salvador Duran, eldri virðulegur S-Ameríkanai, rappaði með og gaf taktinn, ef þannig má að orði komast, með gómhljóðum. Frábært prógram hjá þeim.

Salvador þessi tók svo nokkur lög sóló. Skemmtilegt innlegg sem jók fljölbreytnina þetta kvöld.

Þá var kynntur leynigesturinn sem áður var minnst á. Sufjan Stevens hvorki meira né minna. Amazon.com valdi nýverið plötu hans Illinois plötu ársins, breska tímaritið Mojo setti hana í annað sæti (á eftir Arcade Fire, sem reyndar kom út árið 2004 í Vesturheimi). Flutti hann 2 lög á kassagítar ásamt söngkonu. Fyrst var það Casimir Pulaski Day af Illinoise. Þá lag sem hann frumflutti á tónleikum. Náði ég ekki nafninu á því, en kom þar við sögu Arkansas fylki, sem gefur kannski fyrirheit um hvað næsta plata fjallar um. Sufjan hélt salnum í gíslingu ef svo má að orði komast. Allir hlustuðu með andakt og var honum fagnað gríðarlega eftir hvort lag. Því miður spilaði hann bara tvö lög, en ég tek tvö lög með honum hvenær sem er ef aftur býðst.

Iron and Wine voru næstir. Lengst af voru það bara forsprakkinn Beam á kassagítar ásamt söngkonu, en ýmsir meðlimir Calexico voru að sniglast hringum sviðið og spila með í sumum lögunum. Satt að segja fannst mér prógram þeirra helst til tilþrifalítið og voru margir aðrir á því, að minnsta kosti var mikið um hæðnisköll úr sal þar sem sett var út á klæðaburð Beams.

Eftir um klukkutíma kom svo Calexico fram á sviðið í heild sinni og báðar hljómsveitirnar tóku lög af sameiginlegri plötu þeirra In the Reins, auk eins covers lags, Velvet Underground lagið All Tomorrow's Parties. Þó þetta hafi verið áhugaverðara en Iron and Wine náðu þeir ekki sama flugi og Calexico einir áður. Í heildina séð voru þetta mjög góðir tónleikar og eins gott að ég mætti snemma svo ég missti ekki af því besta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home