föstudagur, nóvember 18, 2005

Staflaður Ted


Tók mig til um daginn og setti mig í stellingar John Cusack í High Fidelity. Diskunum var staflað upp og tekið til við að raða, í þetta skiptið stafrófsröð. Reyndar engin sjálfskoðun í gangi í þessu tilviki. Staflarnir komust á sinn stað, a við hliðina á b o.s.frv. Þegar svona uppröðun á sér stað hittir maður oftar en ekki fyrir gamla vini og í þessu tilviki varð engin undantekning á. Ted Leo heitir maðurinn.

Þegar ég bjó á erlendri grundu á sínum tíma, stakk ég oftar en ekki músík í eyrun til að hunsa öskur minns gamla kýpverska yfirmanns. Þá var stillt á indíútvarp þar sem ýmislegt eyrnajákvætt var reitt fram. Ted heillaði með tónsmíðinni
I'm A Ghost, öskrin gleymdust og índírokkarinn var fangaður. Svo var auðvitað arkað í Other Music og gripurinn verslaður.

Síðan hafa nokkrir diskar bæst í safnið og hér held ég að sé á ferðinni leyndur snillingur jaðarsins. Platan hver snilldin á fætur annarri en enginn að gleypa við henni. Plöturnar eru orðnar 4 og karlinn farinn að taka nokkra skápsentimetra. Fínt að byrja á Hearts of Oak eða The Tyranny of Distance. Hér er á ferðinni kokteill af jaðri í bland við þjóðtrall í bland við rokk með fingurbjörg af poppi. Fín blanda sem virkar.

Tókst einu sinni að grípa gaurinn lifandi. Hann var sem sagt hluti af tónleikaseríu Soutstreet Seaport eitthvert árið. Sons and daughters hituðu upp, smá úði í gangi, svo mætti Ted og þrumuveður kom í kjölfarið. Hann spilaði sem sagt í þrumum og eldingum og á endanum fór rafmagnið en kappinn hélt áfram að plokka strengina og kyrja. Eftirminnilegast er Timorous Me
(kannski ekki alveg frábær útgáfa) í ljósabaði náttúrunnar. Skoðið Ted og hlustið og heyrið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home