miðvikudagur, maí 17, 2006

Wedding Present á Grand Rokk


Ég sá Wedding Present spila á Grand Rokk fyrir nokkrum vikum síðan en vegna leti og ómennsku hef ég ekki haft nennu til að skrifa um það fyrr en nú. Wedding Present voru ein af mínum uppáhaldshljómsveitum hér á árum áður þannig að það var mjög skemmtilegt að ná loksins að sjá þá spila. Reyndar var þarna bara David Gedge af upprunalegri mannaskipan en þar sem hljómsveitin er hvort sem er bara David og einhverjir aðrir þá skiptir litlu máli hverjir standa með honum á sviðinu.
Singapore Sling hitaði upp og lentu í hinum klassísku hljóðvandræðum sem virðast oft fylgja tónleikum þeirra á Grand Rokk. Þetta var hinsvegar nýtt tilbrigði við gömul vandamál því núna fékkst ekki nógu mikið feedback þegar á reyndi, sem fór misvel í hljómsveitarmeðlimi.
Wedding Present náðu hinsvegar strax fínum hljóm og rifu upp skemmtilega stemmingu. Þau (jú, það var stelpa á bassanum í þetta skipti!) spiluðu flest af sínum þekktustu lögum með áherslu á plöturnar Seamonsters og Bizarro. Helstu snilldir kvöldsins að mati undirritaðs voru gamlir kunningjar, lögin Octopussy og Dalliance, en þetta var skemmtilega þétt sett og góð stemming allan tímann. David Gedge kláraði svo settið með því að tilkynna að Wedding Present spilar aldrei uppklappslög og þakkaði fyrir sig. Frábærir tónleikar sem vöktu upp skemmtilegar minningar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home