miðvikudagur, júní 14, 2006

Go Fishing my Boy!

Það var með mikilli eftirvæntingu að ég fór upp í Borgarfjörð á sunnudag. Tilgangurinn var að fara í veiðiferð. Veðrið var íslenskt, hellirigning en þó ekkert rok svona til tilbreytingar. Við stóðum 2 á bakkanum, veiðifélagi minn og ég. Hinum megin við fljótið stóð Roger Waters og kastaði flugunni af ákefð og talsverðum hæfileikum. Því miður urðum við ekki einu sinni varir og lái ég ekki kappanum að gefast upp eftir 3 tíma og halda í bæinn. Það þurfti jú að undirbúa tónleika fyrir næsta kvöld. Atvikin höguðu því svo að ég fór líka fyrr í bæinn en til stóð eftir að hafa fengið að kynnast afleiðingum veðurofsans af meiri nálægð en gott þykir, en tónleikunum skyldi náð þrátt fyrir einhver smá óhöpp.

Egilshöll var troðin af fólki. Við vorum á A svæði en vonlaust var að komast mjög framarlega. Þá var meðalhæð gesta hærri en ég á að venjast, of mikið af miðaldra köllum, svo yfirsýnin á sviðið var takmörkuð. Eftir smá töf vegna gesta sem komu of seint var kýlt á það.

Kallinn byrjaði af krafti, In the Flesh pt 2 og Mother af The Wall. Þá Shine on You Crazy Diamond, Have a Cigar og Wish You Were Here af samnefndri plötu. Síðan eldra lag, Set Controls For The Heart Of The Sun. Þá þrjú lög af Final Cut, síðustu plötu Pink Floyd meðan Waters var enn með, lögin The Gunners Dream, Southampton Dock og Fletcher Memorial Home. Þá komu 2 lög frá sólóferlinum, Perfect Sense (pt 1 og 2) af Amused to Death, að mínu mati einn hápunktur tónleikanna, og Leaving Beirut. Loks Sheep af Amimals. Eftir það kom hlé.

Eftir hlé spilaði hann The Dark Side of the Moon eins og hún lagði sig. Uppklappslögin voru af The Wall, fyrst The Happiest Days of Our Lives/Another Brick in the Wall, og loks Vera/Bring the Boys Back Home/Comfortably Numb. Ég saknaði þó efnis af Pros and Cons of Hitchiking og Radio KAOS. Þetta er skrifað eftir besta minni og gæti ég hafa gleymt einhverju lagi. Alls tæpir 3 tímar með 20 mínútna hléi.

Flutningurinn var fyrirtaks. Roger Waters plokkaði bassann og "söng" í flestum lögum fram að hléi, en hafði sig minna frammi í söngnum á Dark Side. Aðrir komust vel frá sínu, sérstaklega gítarleikarinn Snowy White (en hann hefur lengi spilað með Waters eftir að hafa átt einn hittara in the eightees, Birds of Paradise). Sándið var þokkalegt þarna frammi. Eftir hlé fórum við hins vegar alveg aftast í salinn. Merkilegt nokk, hljómurinn þar var betri, auk þess full yfirsýn yfir sviðið. Græjurnar voru að skila sínu vel, auk þess voru einstaka lög skreytt með umhverfishljóðum úr surround græjunum. Sviðsmyndin var frábær, mikið gert úr stórum vídeoskjám og ljósum. Í Perfect Sense sveif fjarstýrður geimfari yfir gestum við þónokkra hrifningu. En best var samt teiknimyndasagan sem fylgdi Leaving Beirut, sagði söguna af því þegar ungur Waters var að þvælast um Líbanon og var tekinn inn af fátækri múslimafjölskyldu og sýnd hin mesta gestrisni. Það lag er mikil ádeila á stríðið við hryðjuverk, stefnu Bush og Blair og tók salurinn vel undir þegar Roger úthúðaði leiðtogunum. Í heild voru þetta líklega flottustu sjónvarspils tónleikar sem hafa verið haldnir á Íslandi. Vantaði bara uppblásna svínið og þetta hefði verið fullkomið!

Eftir tónleikana fór ég aftur í veiði. Um morgunin lét Roger kallinn hins vegar ekki sjá sig, en ég frétti síðar að hann hafi óskað eftir að fá að veiða um eftirmiðdaginn í staðinn. Það er ekki amalegt að vera bassaleikari í hljómsveit, lagahöfundur og skáld, að geta flakkað um heiminn og tryllt milljónir en samt hafa tíma til að renna fyrir þeim bleika inn á milli. Go Fishing my Boy!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home