fimmtudagur, mars 16, 2006

Kaiser Chiefs í Køben

Ég var staddur í Kaupmannahöfn í síðustu viku og nýtti tækifærið til að sjá Kaiser Chiefs spila á Vega. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef verið á þessum tónleikastað, og þrátt fyrir að leyfa manni ekki að taka með sér skotvopn (eins og tekið er fram á miðanum...), þá líkaði mér afskaplega vel við þennan stað. Til að hita upp fyrir keisarahöfðingjana þá spiluðu Charlets og We Are Scientists. Undirritaður sá aðeins helminginn af seinna settinu en vísindamennirnir virkuðu nokkuð skemmtilegir, svona við fyrstu hlustun, sérstaklega var tekið eftir því hvað trommarinn þeirra var sprækur.

Samkvæmt heimildum frá Köben þá var þetta í þriðja skiptið sem Kaiser Chiefs spila þar á nokkuð stuttum tíma. Á tónleikunum á undan þessum spiluðu þeir á afskaplega litlum stað sem virkaði hugsanlega ekkert of vel því sumir sem fóru á þá tónleika ræddu mikið um hversu yfirþyrmandi athyglissjúkur söngvarinn, Ricky Wilson, hafði verið. Það var eitthvað annað uppá tengingnum á þessum tónleikum... ekki það að Ricky væri eitthvað minna athyglissjúkur, heldur fékk hann bara loksins það pláss sem hann þurfti til að tjá sig almennilega. Þeir mættu á sviðið undir "Money for nothing" stefinu á fullu og flogakastsvekjandi ljósasjóvi. Eftir það tók Ricky við og hélt uppi gríðarlegu stuði alla tónleikana, enda raðaði restin af bandinu sér bara í hálfhring eins langt frá honum og þeir komust þannig að hann fékk næstum því allt sviðið fyrir sig. Það stóð ekki á honum að nýta sér það, í fyrsta laginu byrjaði hann að hlaupa í hringi uppá mögnurum og öðrum græjum sem endaði með því að hann datt næstum því á hausinn. Í stað þess að róa sig niður þá tvíefldist hann við þetta, reif einhverja stúlku uppá svið nokkru seinna og dansaði við hana og söng til hennar í gegnum eitt lag. Settið sem þeir spiluðu var bara Employment platan eins og hún lagði sig, auk þess að taka eitt cover lag eftir uppklapp. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu vel þessir tónleikar tókust, þeir tóku stærstu slagarana sína nokkuð snemma í settinu svo ég bjóst við að þeir ættu ekki nógu sterk lög til að klára þetta með stæl en það voru óþarfa áhyggjur, gríðarlegt stuð frá upphafi til enda. Þeir enduðu svo á laginu "Oh My God" og Danir tóku vel undir svo við gengum út í skítkalda nóttina með setninguna "Oh my god, I can't believe it, I've never been this far away from home" glymjandi í hausnum, sungið með vel þykkum dönskum hreim.