þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Meðmæli vikunnar

Mika - Life In Cartoon Motion
Afar einföld leið til að komast í gott skap...

föstudagur, febrúar 02, 2007

Badly Drawn Boy - Paradiso Amsterdam 31 janúar 2007

Þar sem ég sá fram á að missa af Pétri, Birni og Jóni á Klakanum þá voru keyptir miðar á Badly Drawn svona sem sárabætur. Hef reyndar ekki mikið hlustað á kappann síðustu árin, datt út eftir About a Boy plötuna. Náði mér þó í nýja gripinn (Born in the UK) og, jahh, ekki þykir mér hún neitt sérlega spennandi. En hann er þekktur fyrir að vera með fína díalóga milli laga þannig að það stefndi í fínt kvöld.

Strákurinn var mættur með 4 manna band og lopahúfu, einnig vænan skammt af alkóhóli í skrokknum. Hann spilaði t.d píanóstefið úr vitlausu lagi í upphafslagi tónleikana. Byrjað var á að klára nýjustu plötuna, svo tók hann lög af hinum og þessum plötum. Silent Sigh var hápunktur tónleikanna, enda af hans bestu plötu, About a Boy. Hann spilaði eflaust um 20 lög þetta kvöldið, nokkur tók hann einn á kassann með gítarnum, svo með mismörgum úr bandinu. Svo sem ekki mikið um tónleikana að segja, þetta var bara þokkalegt. Held reyndar að gaur sem stóð fremst og kom alla leið frá Birmingham til að berja strákinn augum hafi verið gríðarsáttur. Strákurinn fær 6.0.

Eftir stóra tónleika á Paradiso þá byrja yfirleitt tónleikar í minni sal í kjölfarið. Þetta kvöldið voru það Eagle Seagull sem tróðu upp. Ég fékk svona svipaða tilfinningu og þegar að ég sá Stellastarr í fyrsta skiptið við upphafstónana. Þótti þetta bara stök snilld. Í stað Amöndu var komin stúlka á rafmagnsfiðlu, svo var það Stefán Pálsson sem sá um sönginn. Alla vega einhver mjög líkur honum.
Eftir annað lagið var stefnan tekin á sölubásinn til að versla disk. Þegar þriðja lagið hafði hljómað var reyndar smám saman farið að koma í ljós að þetta var eiginlega samsull af Franz, Hot Hot Heat með vænum skammti af ætís. Óld nús. En alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt þó.

Isobel Campbell og Mark Lanegan - Paradiso Amsterdam, 28 janúar 2007.

Mér hefur lengi langað að bregða mér á tónleika á þessum rómaða stað í Amsterdam. Reyndar hafa nokkrar tilraunir verið gerðar. Náði m.a. að mæta degi of seint á Múm tónleika eitt skiptið.

Við náðum að mæta á réttum degi og þokkalega á tíma í þetta skiptið. Spennan var nokkur fyrir giggið, platan ansi góð og þarna innanborðs tveir einstaklingar sem eiga rótgrónar rætur í tónlistarfortíð minni. Isobel auðvitað í Belle og Seb á sínum tíma og gaddavírsbarkinn Mark kyrjaði I nearly lost you ásamt því að hafa m.a. stoppað í Queens of the stone age og gefið út slatta af sólóplötum.

Á Paradiso er desibilamælir. Rétt fyrir tónleikana sýndi mælirinn um 89 db. Það segir kannski sitt um þessa tónleika að mælirinn fór ekki mikið yfir 95 desíbilin. Lágstemmt og kósí svona á sunnudagskvöldi. Þau rúlluðu í gegnum megnið af plötunni, eins komu þarna eigin lög inn á milli. Var að vonast að Mark skellti sér í Screeming Trees gallann sinn, hann klikkaði á því. Hollendingarnir voru í gríðarlegu kjaftastuði þetta skiptið, stundum svo að maður varla heyrði í krúttinu henni Isobel. Hún fór einmitt að hlæja vegna kliðs í einu laginu, oftar en einu sinni. Held reyndar að Isobel hafi reykt eh sterkara en Malboro fyrir þessa tónleika. Hún var alltaf að gleyma sér, byrja of seint eða snemma og hlæja og ruglast. Allt voða krúttlegt samt. Mark sagði sem minnst, stökk varla bros en söng eins og engill. Ótrúleg rödd í þessum kappa, ein sú magnaðasta á markaðnum í dag. Hollendingarnir þorðu ekki annað en að halda kjafti þegar hann byrjaði að syngja.

Í heildina ekkert spes tónleikar, Isobel ekki alveg að virka og ekki mikil geislun af bandinu. Eins og þau væru að spila saman í fyrsta, ja kannski annað skitpið. Mark var maður kvöldsins, markmaður. Einkunn: 6.7.