sunnudagur, ágúst 13, 2006

Now My Heart is Full

Topp 3 af flottustu mönnunum í bransanum eru á mínum dómi þeir Frank Sinatra, Bryan Ferry og Morrissey. Ég hef átt þess kost að sjá tvo þá síðarnefndu á sviði áður, báða í Radio City Music Hall í NY, en því miður fór Stjórnarformaðurinn á sinn síðasta fund áður en ég hafði tækifæri á að hitta hann.

Morrissey en yngstur og enn að framleiða gæða efni. Kappinn kom sá og sigraði í Höllinni í gær. Ýtursvöl framkoman, fullkomið vald á flutningi og röð af slögurum sem fáir geta betrumbætt tryggðu góða skemmtun. Hver sem getur byrjað tónleika sína á How Soon is Now, First of the Gang to Die og You Have Killed Me er öfundsverður. Morrissey hefur ávallt átt þá lukku að starfa með hæfileikaríkum tónsmiðum. Samstarf hans við Johnny Marr var án efa eitt það besta í tónlistarsögunni. Auk þeirra geta aðeins Lennon og McCartney, Burt Bacharach og Hal David og Björn og Benny gert átt tilkall til þess að vera taldir bestir meðal tvíekja tónsmiða. Það sem þeir hafa þó umfram aðra er að textar Morrissey hafa haft djúpstæðari áhrif á fleira fólk en flestir aðrir í bransanum, það er þá helst að Lennon og Roger Waters komist þar nærri.

Það var því lifandi goðsögn sem stóð á litla sviðinu í Höllinni. Umgjörðin var fín þó ekki væri stórt ljósaskilti eða annað slíkt. Mig grunar að vegna heldur dræmrar miðasölu hafi verið ákveðið að gólfið yrði sitjandi. Það þýddi að allir höfðu góða yfirsýn yfir sviðið, en einnig að stemmnding var dálítið bæld fyrir vikið. Þrátt fyrir sætaskipan fékk hópur fólks að standa fremst sem bætti það upp. Það bar þó ekki á því sem ég sá í Radio City og sést einnig vel á DVD diskinum Who Put the M into Manchester, að fólk væri að reyna að ryðjast upp á svið til að faðma kappann. Morrissey tók því vel, þó sumir segi að hann óbeint hvetji til þess og nærist á því, og þess í stað gerði í því að heilsa áhorfendunum fremst. Julia var þar líka og fékk sitt 5 sekúndu breik, þeir sem ekki vita hver hún er ættu að gúggla smáveigis. Sándið var í lagi, en alls ekki upp á sitt besta. Kannski vegna þess að of mikið var af beru gólfi. Maður fær ekki allt.

Prógrammið var að uppistöðu efni af nýjstu plötunni Ringleader of the Tormentors. Auk þess nokkur lög af You are the Quarry, og eldri lög. Af Smiths lögunum var það helst Girlfriend in a Coma sem fékk viðbrögð, enda hefur ekki frést að hann hafi tekið það á fyrri túrum. Ég hefði þó viljað meira af vinsælli lögum af fyrstu plötunum. Þá var ég ekki hress með að hann tæki bara eitt uppklappslag því þá var Höllin fyrst farin að taka við sér og fólkið vildi meira, miklu meira. En þegar Old Blue Eyes fór að hljóma þá vissi maður að þetta var búið. Tónleikarnir í heild sinni voru um 1 og hálfur tími. Allt í allt, sólid 4ra músa tónleikar.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Myndlist fyrir tónleikafíkla - 3/3