föstudagur, október 28, 2005

I Hate Scotland *

Franz Ferdinand, Belle and Sebastian, kannski Trashcan Sinatras...... Og já, Sean Connery, Sir Alex Ferguson og Rod Stewart. Þetta er líklega það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá mörgum þegar það er beðið að nefna skoskar hljómsveitir eða fræga Skota. Sannarlega glæsileg uppröðun, þó ekki sé hún löng.

Ég ætla að leyfa mér að bæta við einu nafni sem þið skuluð setja á minnið, ballboy.

ballboy er fyrst og fremst gítarleikarinn, söngvarinn og textasmiðurinn Gordon McIntyre. Undir vinnuheitinu ballboy er hann að auki með Nick Reynolds á bassa, Alexa Morrison á hljómborð og Gary Morgan á slagverk. Lagasmíðarnar eru einfaldar en grípandi, hálfgert þjóðlagapopp. Fyrsta platan Club Anthems er öll mjög einföld í útsetningum, oft bara spiluð á gítar, á meðan önnur platan A Guide for the Daylight Hours er meira fullunnin, fyrirtaks indie popp. Hún er líklega aðgengilegasta platan fyrir byrjendur. Síðustu 2 plöturnar, The Sash My Father Wore and Other Stories og The Royal Theatre eru svo að vissu leyti afturhvarf til einfaldleikans.

En það eru fyrst og fremst textarnir sem gera ballboy svo skemmtilegan. Lagaheitin gefa strax fyrirheit um það, t.d. I Lost You but I Found Country Music og I Wonder if You are Drunk Enough to Sleep With Me Tonight. Textarnir eru ekki þetta venjulega popp, heldur hnittnir og glúrir, oft um samskipti við stelpur, hvort heldur til að öðlast sjálfstraust til að tala við þær eða þá gefa skít í það eftirá af hverju þær vildu ekkert með hann hafa. Alla texta ballboy auk nokkurra tómdæma má finna á síðu sveitarinnar, svo allir ættu að geta kynnt sér ballboy upp á eigin spítur.

Nú heyrast þær fréttir að Gordon McIntyre sé að koma með sólóverkefni sem hann kallar ++Money Can't Buy Music. Hér kveður við annan tón. Þetta er elektrónísk tónlist með ljóðalestri, held það skýri það best. Upplýsingar eru enn af skornum skammti þó, fylgist með hér á Músinni Magnús.

* Þess ber að geta að titillinn á þessum pósti er samnefndur einu laginu á Club Anthems. Höfundur þessarar greinar ber engan kala til Skotlands, nema síður sé.

fimmtudagur, október 27, 2005

Músíkkvöld í Uppsölum


Á móti hótelinu hérna er þessi líka fíni tónleikastaður. Brugðum okkur þarna inn til að næla okkur í bita matar. Brátt fylltist staðurinn af fólki og það kom sem sagt í ljós að sænsku ofurrokkararnir í Hellacopters voru mættir á svæðið. Rámaði eitthvað í nafnið, eitthvað indí lófí undergránd dæmi, minnti mig. Því var ekki laust við að nokkur spenna tæki að gera vart við sig í búknum. Fengum síðustu miðana.

En úff. Þessar lófíminningar ekki alveg réttar. Þarna voru komnir pungarokkarar andskotans. Rokkabillípíanó, vælandi gítarsóló og sítt hár. Svíarnir í salnum voru reyndar að fíla sig í botn. Mikið sungið með og rokkað í takt. Samflotsfólk mitt gafst upp eftir nokkra slagara, sjálfur ákvað ég að halda þetta út aðeins lengur. Kom reyndar á daginn að þetta varð betra með hverju laginu og stóð ég sjálfan mig að haushristingum undir lokin. Já, reyndist bara ágætis skemmtun.

Ekki var nú sænska rokkið búið að syngja sitt síðasta þetta kvöldið. Römbuðum inn á Fredmans og sáum sveitina The Matlocks. Hmm. Þeir voru bara þokkalegir, smá NY í bland við sænskt pönk. Sei sei. Reyndar alltaf gaman að heyra eitthvað nýtt, þó að ferskleikinn sé kannski ekki til staðar.

Eða eins og Hellacopters segja: ALL PUNK MUST ROCK - ALL ROCK MUST PUNK!

John Peel og Teenage Kicks

Í gær var liðið ár síðan John Peel lést. Ég sá í gærkvöldi nokkurs konar minningarþátt um hann á BBC 4. Þar sögðu ýmsir þekktir og minna þekktir samferðarmenn sögur af kallinum. Þetta var svona vídeó minningargreinar Mbl.

Það er kannski klysja en sagt er að Teenage Kicks með Undertones hafi verið uppáhalds lagið hans. Damian O'Neill annar af gítarleikurum Undertones sagði sögur af því. Þegar Undertones voru ungir og reyna að koma sér áfram sendu þeir demó spólu til JP og báðu hann að spila hana. JP sendi þeim bréf tveim mánuðum seinna, afsakaði hversu lengi það tók að svara, þakkaði fyrir spóluna og sagði þá endilega verða að taka up session hjá sér. Ekki væri hægt að borga undir þá til London, en hann gæti útvegað tíma í stúdíói í Norður Írlandi og hann skyldi borga það prívat. Undir þetta var stimplað með rauðu "John Peel, the world's most boring man". Þar var Teenage Kicks hljóðritað.

Þegar JP varð 60 var Damien boðið í veisluna. Hann var að velta fyrir sér hvað gjöf hann ætti að gefa. Hann fann uppi á háalofti blað með upprunalega textanum að Teenage Kicks, fullt af leiðréttingum og endurbótum handskrifaðum af bróður hans, John O'Neill, sem var hinn gítarleikari Undertones. Þetta gaf hann honum innrammað í afmælisgjöf. JP tók á móti þessu og sagði "En merkilegt", afsakaði sig svo og hvarf inn í hús í svona 10 mínútur. Kom þá út úr húsinu aftur og mátti sjá að hann hafði þerrað tár. JP var ekki maður margra orða.

Það kemur því kannski ekki á óvart þegar skoðaður er kassinn með þeim 7" plötum sem John Peel hélt mest uppá að þar eru 3 eintök af Teenage Kicks.

sunnudagur, október 23, 2005

Airwaves uppgjör


Þá er Airwaves lokið. Margt var gott en sumt var vont. Hér er þetta í nokkurn veginn verst til best röð.

Klúðrið: biðraðirnar og alltof litlir staðir til að taka við þessum fjölda. Þú varðst bara að velja þér stað, koma snemma og vera þar allt kvöldið. Fyrir vikið var ekki alltaf hægt að raða upp prógrammi alveg eins og maður vildi.

Mestu vonbrigðin: komst ekki út á laugardagskvöldið og missti af Clap Your Hands Say Yeah og Ratatat.

Mikil vonbrigði: Cotton + Einn og Annie. Þetta var ekki einu sinni smá skemmtilegt.

Mild vonbrigði: New Radio og Au Revoir Simone. Átti von á meiru frá þeim miðað við það sem ég hafði heyrt.

Hvorki né: Apparat Organ Quartet. Nýja stöffið er eins og það gamla, bara ekki eins skemmtilegt. Hvernig er það, eru þeir enn í sömu fötum og fyrir 3 árum?

Vel gert: Búdrýgindi, Funk Harmony Park, Reykjavík! og Skátar. Það er greinilegt að það er mikil gróska í gangi í alls konar tónlist. Fylgist með hér.

Næstbest: Architecture in Helsinki. What the funk! Mjög skemmtilegt hjá þeim.

Best: Þrátt fyrir að vera ekki mikill elektró og teknó maður, þá var ekki annað hægt en að hafa gaman af Hermigervli. Ótrúlegt og flott líka.

Það má sjá af þessu að ég var á Gauknum, svo NASA miðvikudag og föstudag en á Listasafninu fimmtudag. Aðra staði fór ég ekki á. Fyrir utan það sem hér að framan er minnst á er fullt sem ég hefði vel getað hugsað mér að sjá, nefni þá helst Benna Hemm Hemm, Junior Senior, Juliette & the Licks, The Fiery Furnaces og The Zutons. Í heild var þetta samt ágætt og bíð ég spenntur eftir næsta ári!

fimmtudagur, október 13, 2005

Airwaves planið

Jæja, þá er búið að birta skipulagið á Airwaves. Samkvæmt lauslegri athugun þá virðist mér sem Architecture in Helsinki séu að spila á nákvæmlega sama tíma og Fiery Furnaces, og það sem meira er, Juliette Lewis verður líklega bara rétt byrjuð á settinu sínu þegar hinir byrja... Fúlt. Þessi 3 bönd eru mjög ofarlega á listanum hjá mér yfir hvað ég vil sjá á þessari hátíð og þá þarf endilega að smella þeim á sama tíma. Maður mátti nú kannski búast við þessu, erfitt að skipuleggja svona marga tónleika þannig að ekkert áhugavert skarist, en það breytir því ekki að ég er hundsvekktur!

sunnudagur, október 09, 2005

Grískur Ferdinand - 7. okt.

Grúpppía dauðans? Farinn að elta Franz heimsálfanna á milli. En þannig er þetta bara. Eftir að hafa séð piltana í Kaplakrika núna í sept á var ekki laust við að illur bifur gerði vart við sig. Er reyndar farinn að taka þá í sátt aftur, nýja platan er bara fín. Það er ekki þeim að kenna að nánast allir blaðamenn hnattkringlunnar skrifi um þá og smelli á forsíðuna. Illi bifurinn minnkaði reyndar þegar kom í ljós að Tv on the radio myndu hita upp. Sá þá á snilldartónkeikum á Irving Plaza í fyrra og var farinn að hoppa um af kátínu. Auðvitað var mætt í dansskónum á Greek Theatre. Snobbið var skilið eftir heima.

Og það var sko dansað með löppum, höndum og haus. Þeir mega eiga það drengirnirnir að þeir kunna að kitla danstaugina. Ekki skemmdi heldur fyrir að tónleikarnir voru úti, 25 stiga hiti, blíðulogn. Prógrammið kom ekki á óvart, gamlir slagarar í bland við nýja efnið. Nýja platan reyndar ekki jafnsterk og sú fyrsta en þarna var ég búinn að renna henni nokkrum sinnum í gegn og lögin runnu því ljúfar niður en í Krikanum. En hvað er með þennan bassaleikara? Sé hann fyrir mér spila gömlu dansana á Grund. Ótrúlega líflaus drengurinn, eins og hefur reyndar komið fram hér á músinni. Það kom reyndar í ljós að uppáhaldslagið hans er Take me out, þetta tilkynnti söngvarinn áður en þeir töldu í það annars ágæta lag.

Í heildina var þetta bara gaman, ekkert sem að kom á óvart, lappdans, dill og meðsöngur.

Sigur Rós í skál ...


... hollívúdd skál. Miðvikudaginn 5. okt mættu drengirnir í Sigur Rós til Hollívúdd til að halda gigg. Eftir að hafa séð bandið nokkuð oft þá var eftirvæntingin kannski ekki mikil.

Tónleikarnir voru haldnir í Hollywood Bowl þar sem setið er úti, meira segja hægt að taka með sér áfenga drykki, vínber og oststykki, eitt eða tvö. Flottur staður. Við fengum sæti í stúku sem var á snilldarstað, framarlega fyrir miðju. Í kringum okkur sátu svo um 8 þúsund manns. Gaman að geta þess að í litla hópnum okkar var m.a. kærasta Anthony
Kiedis, heitu piparsöngpípunnar. Lítill þessi heimur alltaf. Alla vega, hér var spennan orðin nokkuð mikil, og það nánast trylltist allt þegar þeir gengu á svið. Þeir byrjuðu á Göng sem þeir spiluðu fyrir aftan stórt hálfgegnsætt tjald. Svo var tjaldið fellt og við tóku bestu tónleikar sem að ég hef séð með drengjunum. Man alltaf eftir fyrsta skiptinu sem að ég sá þá, gæsahúð og geðshræring, eins og vill oft verða með fyrsta skiptið. Veit kannski ekki með gæsahúðina. En þetta var langtum betra en fyrsta skiptið, ótrúlega þéttir og hljómurinn eins og hann gerist bestur.

Þeir tóku lög af síðustu þremur plötunum, hápunktarnir voru margir en Hoppaipolla, Ny Batteri, Lag 8 og síðast en ekki síst Hafsól sem er alveg hreint ótrúlegt stykki, stóðu upp úr. Tónleikarnir enduðu svo á sama hátt og þeir byrjuðu, tjaldið dregið fyrir og rokkað út í nóttina. Tónleikarnir fá fullt hús stiga. Og já, takk fyrir mig.

Eftirpartýið var fínt, Ron Jeremy mætti á svæðið og var hinn hressasti. Hreint ótrúlega perralegur náungi. Við stoppuðum reyndar ekki lengi við, tveir ölbjórar og heim í kotið.