sunnudagur, ágúst 28, 2005

When in Eindhoven



Já, þannig er nú það. Ef leið ykkar skyldi liggja í gegnum Eindhoven þá er þetta plötubúðin. Ég gekk að hurðinni og opnaði dyrnar með höndunum. Var með lista af músík, fann allt á þessum lista mínum. Nældi mér m.a. í Wolf Parade EP skífu sem er helber snilld, Magic Numbers sem er dillandi hresst og bætti aðeins á s-banda safnið. Tékk itt át.

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Pæling - Victim of own success?

Nú þegar um vika er í tónleika Franz Ferdinand gæti mér varla staðið meira á sama. Fyrir rúmlega ári síðan sá ég þá í 3ja skipti á nokkrum mánuðum. Þeir voru þá orðnir að stóru bandi, höfðu farið úr Bowery Ballroom yfir í Roseland á 6 mánuðum, sá síðarnefndi staður rúmar allt að 10 sinnum fleiri en sá fyrrnefndi. Ég sá þá svo í sjónvarpinu á sunnudaginn þar sem þeir voru að spila á V-Festival fyrir utan London þann sama dag. Mikið fannst mér þeir vera þreyttir. Spilagleðin frá Bowery var ekki til staðar og þeir voru eins og álfar út úr hól þegar þeir spiluðu lag með glyspoppurunum í Scissors Sisters. Nýja lagið þeirra, Do you want to, er líka ansi þreytt.

Ætla Franz Ferdinand að verða aðrir Coldplay? Það gerist eitthvað í höfðinu á indie böndum þegar þau verða vinsæl meðal hins almenna popp hlustanda, eitthvað verulega vont. Það er höggið í sama knérunn til þess að fæla ekki hlustendurna frá, jafnvel poppað aðeins meira upp. Frjósemin víkur fyrir formúlunni. Jú víst er hægt að selja bílfarma af plötum fyrir vikið, en hlustendur eru ekki fífl til lengdar. Þessar hljómsveitir eru dæmdar til að falla hratt í gleymskunnar dá, en munu þó halda áfram að senda frá sér efni sem aðeins hinn harðast kjarni kaupir. Öðrum stendur á sama.

Ég er ansi hræddur um að Franz Ferdinand séu að nálgast síðasta söludag. Það er þó vonandi að þeir hafi ennþá eitthvað spennandi að sýna mér og öðrum Íslendingum í næstu viku. En það verður aldrei aftur eins og í fyrsta skiptið.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Nýbylgja

Stundum rekst maður á plötur sem vekja forvitni eingöngu út á umslagið. Þannig var það með Nouvelle Vague sem ég rakst á í uppáhalds plötubúðinni minni um daginn. Í þessari búð er plötum raðað inn í glerskáp og því ekki hægt að sjá mikið um diskana, taka þá út, skoða lagavalið og slíkt. En umslagið talaði til mín svo ég tók sénsinn. Fékk diskinn í hendurnar og las lagalistann: Love will tear us apart, Just can't get enough,... Hmm. Hvað er þetta svo? Í stuttu máli sagt, ef þú ætlar á Ölstofuna í kvöld skal það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð út vera að setja þennan disk í spilarann, þ.e. ekki svo mikið til að koma þér í rétta gírinn, heldur fyrir eftirpartýið. Franskt djassí sexý. Held það lýsi þessu best. Nýbylgjan hefur aldrei hljómað svona áður.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Stellastarr* mætt aftur

Hver man ekki eftir vinum okkar í Stellastarr*? Amanda og félagar eru víst tilbúin með nýja plötu, eru komin á stóran label og voða gaman. Hér má alla vega finna fyrsta singulinn af þessari plötu. Ég gleymi því seint þegar ég heyrði My Coco í fyrsta skipti á Luna Lounge, gæsahúð og hárris á hálsi, reyndar víðar. Lítið um húð á gæs í þetta skiptið, held að þeim sé aðeins farið að fatast flugið.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Linkur

Setti inn link hér á hlið. Endilega tékka á þessu, þarna má m.a. finna lög af nýju Death Cab plötunni, Wolf Parade og annarri snilld.

Pæleikar - Kötturinn í sekknum?

…eða kannski frekar á forknum. Oftar en ekki hringir maður í internetið og kíkir á forkinn. En veit forkurinn eitthvað í sinn haus? EFP er búinn að fjárfesta í nokkrum skífum sem forkurinn telur ómissandi á árinu, stundum blint, stundum ekki. Er forkurinn að rýja EFP inn að skinni, eða er hann bara snillingur? Hér eru nokkrar plötur sem hafa ratað í innkaupakörfuna, yfirleitt án mikillar ef einhverrar hlustunar.
Clap Your Hands Say Yeah - Clap Your Hands Say Yeah
PF 9.0 EFP 7.9
Hvað er eiginlega ad gerast með þessi hljómsveitarnöfn í dag, pant fá s-böndin aftur. Say yeah to your hands, alltof flókið. The Claps? Þessi eitís pönk bræðingur er orðinn fremur þreyttur, en The Claps eru barasta að virka.
Art Brut - Bang Bang Rock & Roll
PF 8.9 EFP 7.7

Hmm, ekki alveg viss med hana þessa. Á frekar eftir verða hækkuð upp, með lækkandi sól, ef eitthvað er. Jamm.
The Hold Steady - Separation Sunday
PF 8.7 EFP 6.8
Uss, fylliraftur röflandi yfir misgóðri tónlist. Mæli þó med laginu Cattle and the creeping things. Laumast jafnvel á topp 10.

The Boy Least Likely To - The Best Party Ever
PF 8.5 EFP 8.8
Hér var rennt blint í sjóinn, en þvílík hamingja. Stuðið aldrei langt undan þegar þessi fer á fóninn, uppáhaldsplata Loga.
Antony and the Johnsons - I Am a Bird Now
PF 8.6 – EFP 7.7

Enn einn Brooklyn-búinn sem er kominn í hæpvélina. Fínir tónleikar á nasa. Anton náði að bræða rokkhjartað en það hefur þó að mestu storknað, skáldlegt.

LCD Soundsystem - LCD Soundsystem
PF 8.2 EFP 6.2
Þetta á víst ad vera einn sá svalasti, alla vega á síðasta ári. Vinur David Holmes, mixari fyrir Le Tigre og fleiri, neitaði samt ad skrifa fyrir Seinfeld. Þessi var sett í innkaupakörfuna með eftirvæntingu, en ha? Hér hafði forkurinn tvo stig af EFP.

Niðurstaðan: Forkurinn gaf 51.9 stig, EFP 45.1. Spurning, hmm. Kannski best að hlusta næst með eyrunum áður en straujað er með höndunum.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Tónleikar: Fuji Rock Festival, dagur 2, 30. júlí 2005

Made in Japan
Ég átti þess nýlega kost að fara á Fuji Rock festival í Japan. Tímaskortur og aðrar ytri ástæður settu þær skorður að ég gat aðeins farið á einn dag af þrem. Fyrir valinu varð dagur 2. Þegar dagskráin er skoðuð þá má kannski færa rök fyrir því að þetta hafi verið veikasti dagurinn þar sem mörg "stærri" bönd og áhugaverðari "minni" bönd voru í boði hina dagana, en það skyldi samt ráðist í þetta. Því miður settu almenningssamgöngur frekara strik í reikninginn þannig að ekki var mögulegt að sjá hljómsveitarnar sem síðast fóru á svið, svo sem Dinasaur Jr., nema eiga það á hættu að verða innlyksa á svæðinu fram á næsta dag. Ofan á allt bættist svo úrhellisrigning, kannski viðeigandi þar sem þetta var jú Verslunarmannahelgin.
Big in Japan
Fyrsta bandið sem við sáum var Maxïmo Park á aðalsviðinu. Ég hef ekki heyrt í þeim áður en mun leggja við hlustir héðan í frá. Þeir spila frísklegt rokk, dálítið eighties skotið eins og svo mörg önnur bönd um þessar mundir. Sviðsframkoman var lífleg og náðu þeir vel til fólksins. Þá lá leiðin í Rauða tjaldið að sjá The Bravery frá NY. Ég hef áður gert skil hér að neðan tónleikum með þeim viku fyrr í NY. Bravery voru alls ekki eins góðir í þetta skipti. Söngurinn var slappur og krafturinn komst ekki nógu vel til skila. Þeir náðu þó aðeins að hita upp í liðinu þegar þeir tóku helstu hittarana. Eftir langa göngu gegnum þvögu tugþúsunda manna að því er virtist, komumst við á Hvíta sviðið og sáum Feeder. Þeir voru mjög góðir að mínum dómi. Dálítið þyngri en það sem maður á að venjast að komi frá Bretlandi, en áheyrendur voru vel með á nótunum. Maður hefur það á tilfinningunni að þessi "litlu" bönd hér að ofan hafi öll mjög trausta aðdáendur í Japan og þau hafi öll meikað það þar, enda hafa örlög margra verið að falla fljótt í gleymsku á vesturlöndum þótt vinsældirnar haldist lengur í Japan.
Turning Japanese
Gang of Four komu næst við sögu með post pönk rokk í hæsta gæðaflokki. Hrátt og kraftmikið, fyrsta flokks sviðsframkoma, einfaldar og grípandi laglínur og örlítið dansskotið á köflum. 25 árum eftir að þeir voru upp á sitt besta eru þeir aftur komnir á ferð og má segja að mörg bönd í dag séu undir áhrifum frá þeim. Þetta var toppurinn á deginum að mínum dómi. Síðastur á dagskrá okkar var svo Beck á aðalsviðinu. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið aðdáandi en heyrt í honum svona af og til gegnum tíðina. Kallinn var í fínu formi, en mér fannst prógrammið heldur undarlegt. Til skiptis voru það þekkt og dansvæn lög eins og Looser, og dönsuðu þá allir í drullunni og rigningunni, og svo allt að því tilraunakennt efni á óhefðbundin hljóðfæri sem kældi fólkið niður inn á milli. Ég hafði það á tilfinningunni að þegar hér var komið við sögu væri fólk bara að bíða eftir Fatboy Slim og hinum reivurunum og ætluði sér að djamma alla nóttina að japönskum sið. Svo japanskur er maður þó ekki orðinn og nennti ekki að standa í því. Ekki Beck heldur, enda hraðaði hann sér burt af svæðinu strax og hann hafði lokið sér af - við mættum honum á brautarstöðinni er við biðum eftir síðustu lestinni aftur til Tokyo.