miðvikudagur, maí 17, 2006

Joanna Newsom & Smog & Slowblow í Fríkirkjunni.

Í gærkvöldi voru fyrri tónleikar Joanna Newsom haldnir í Fríkirkjunni. Fríkirkjan er frábær tónleikastaður fyrir rólega stemmingartónlist eins og Anthony & The Johnsons sýndu fyrir nokkrum mánuðum, og þau sem spiluðu þarna í gær undirstrikuðu rækilega hversu skemmtilegur þessi staður er. Kvöldið byrjaði á Slowblow. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef séð Slowblow spila og ég hef ekki hlustað mikið á þá, en þar sem ég hef heyrt mikið gott um þetta band þá var ég með miklar væntingar. Þeir brugðust þeim væntingum ekki, mjög skemmtilegt sett með strengjasveit undir og menn að skiptast á hljóðfærum milli laga.

Næstur á svið var Smog. Bill Callahan birtist þarna með gítarinn sinn, sat og söng með sinni snilldarrödd (sem passar engan vegin við útlitið á honum...) og heillaði kirkjugesti. Hann tók mörg af sínum skemmtilegri lögum með áherslu á lög frá Knock Knock, Dongs of Sevotion og nýju plötunni A River Ain't Too Much To Love. Þau lög sem tóku sig hvað best út voru lögin dress sexy at my funeral, the well og lokalagið cold blooded old times.

Joanna Newsom birtist næst sem lítið blóm með hörpuna sína (...eða hörpuna hennar Katie sem var fengin að láni...) og hvíslaði ljúft takk í hljóðnemann. Síðan hóf hún upp raust sína og söng eins og breima kattarengill. Röddin hennar hefur verið (ásamt hörpunni) það sem aðskilur hana hvað helst frá öðrum tónlistarmönnum og það var gaman að sjá að röddin hennar nýtur sín betur á sviði heldur en á disknum. Hún er með frábæra og sérstaka rödd sem naut sín vel á þessum stað. Joanna spilaði 2-3 ný lög, þar á meðal eitt sem hefur hingað til kallast "langa nýja lagið" af mörgum sem hafa séð hana spila nýlega. Hún spilaði og söng af mikilli innlifun og gleði sem skilaði sér rækilega út í salinn.

Eini gallinn á þessum tónleikum var sá að þegar dyrunum var lokað þá varð gríðarlega heitt og loftlaust þarna inni, með betri loftræstingu hefðu þessir tónleikar verið fullkomnir og fríkirkjan sem tónleikarstaður væri hiklaust sá besti fyrir þá tónlist sem spiluð var þarna í gærkvöldi.

Wedding Present á Grand Rokk


Ég sá Wedding Present spila á Grand Rokk fyrir nokkrum vikum síðan en vegna leti og ómennsku hef ég ekki haft nennu til að skrifa um það fyrr en nú. Wedding Present voru ein af mínum uppáhaldshljómsveitum hér á árum áður þannig að það var mjög skemmtilegt að ná loksins að sjá þá spila. Reyndar var þarna bara David Gedge af upprunalegri mannaskipan en þar sem hljómsveitin er hvort sem er bara David og einhverjir aðrir þá skiptir litlu máli hverjir standa með honum á sviðinu.
Singapore Sling hitaði upp og lentu í hinum klassísku hljóðvandræðum sem virðast oft fylgja tónleikum þeirra á Grand Rokk. Þetta var hinsvegar nýtt tilbrigði við gömul vandamál því núna fékkst ekki nógu mikið feedback þegar á reyndi, sem fór misvel í hljómsveitarmeðlimi.
Wedding Present náðu hinsvegar strax fínum hljóm og rifu upp skemmtilega stemmingu. Þau (jú, það var stelpa á bassanum í þetta skipti!) spiluðu flest af sínum þekktustu lögum með áherslu á plöturnar Seamonsters og Bizarro. Helstu snilldir kvöldsins að mati undirritaðs voru gamlir kunningjar, lögin Octopussy og Dalliance, en þetta var skemmtilega þétt sett og góð stemming allan tímann. David Gedge kláraði svo settið með því að tilkynna að Wedding Present spilar aldrei uppklappslög og þakkaði fyrir sig. Frábærir tónleikar sem vöktu upp skemmtilegar minningar.

sunnudagur, maí 07, 2006

Maðurinn með hattinn.... *

Tónleikarnir í gær með Badly Drawn Boy á Manchester hátíðinni voru í einu orði sagt frábærir. Þetta var annað skiptið sem ég sé drenginn á sviði. Í fyrra skiptið spilaði hann 3ja tíma konsert á Bowery Ballroom, að mestu einn uppi á sviði þó svo bandið hafi fengið að spila með í nokkrum lögum, reitandi af sér brandara, drekkandi og keðjureykjandi. Hann ætlaði aldrei að hætta, ekki fyrr en hótun kom um að rafmagnið yrði tekið af húsinu og klukkan orðin 2 að morgni þegar sjóvið átti að vera búið á miðnætti. Í gærkvöldi var það svipað, 40 mínútum of seinn á svið vegna seinkana, átti klukkutíma slott en náði samt að koma að einum og hálfum tíma og hefði örugglega haldið áfram miklu lengur ef það hefði verið hægt.

Ólíkt fyrri tónleikunum kom hljómsveitin hans mikið við sögu í þetta skipti. Hann byrjaði reyndar einn með kassagítar og munnhörpu. Hann var smá tíma að finna rétta taktinn og afsakaði sig hvað hann væri ryðgaður því hann hefði ekki spilað lengi, en kannski væri ástæðan miklu frekar að hann væri pissed og knackered. Í miðju öðru laginu, hinu frábæra The Shining opnunarlagi fyrstu plötunnar The Hour of the Bewilderbeast, komu þeir Sean og Alex inn á sviðið og tóku smám saman að spila með. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því á fyrri tónleikunum hvað þessir strákar eru rosalega góðir tónlistarmenn, enda komu þeir þá ekki mikið við sögu. Bassinn hjá Sean var pottþéttur, fastur en samt syngjandi, t.d. í laginu Fall in a River. Alex sýndi engu minni takta á trommurnar. Í einu af nýju lögunum gaf hann þrumandi taktinn með bassatrommunni en sló svo trommur or symbala létt með berum fingrunum. Næmnin og tímasetningin var líka einstaklega góð. Simon, hinn trausti bakhjarl, spilaði einnig stundum með á hljómborð eða gítar.

Það er ómögulegt að vita fyrirfram hvaða lög Damon ákveður að spila, það fer eiginlega eftir stemmningunni og því hversu lengi honum er leyft að vera á sviðinu. Í þetta skipti tók hann ein 4-5 lög af The Hour of the Bewilderbeast, eitt af Soundtrackplötunni (af virðingu við BDB verður hún ekki nefnd hér, en hann kýs að kalla hana stundum Kramer vs Kramer eða Gone with the Wind), nokkur ný lög og svo reiting af hinum 2 plötunum, en þó engin af stóru lögunum af þeim. Kannski biðu þau 3ja tímans ef út í það færi. Útsetningarnar á lögunum voru frjálslegar, ekki hikað við að breyta "stysta lagi sem nokkri sinni hefur verið tekið upp" í lengri útgáfu með gítarsólóum að hætti Richards og Townsend ef svo bar við. Bandið er greinilega öllu vant þegar Damon er annars vegar og ekkert sló þá út af laginu, jafnvel þótt rafmangsgítar Damons dytti úr sambandi héldu þeir áfram í sínu grúvi. Þetta er svo frískandi öðru vísi en hjá megin þorra hljómsveita í dag (Elbow er ofarlega í minni, skiljanlega) sem virðast bara geta spilað lag frá A-Ö, án breytinga frá plötunum. Kannski er það hræðsla við að áheyrendur styggist ef læv útgáfurnar eru öðru vísi en plöturnar, en hjá BDB er þetta akkúrat öfugt, hann þrífst á því og hans áheyrendur kunna að meta það.

Það sem hins vegar stendur uppúr er hversu Damon er einlægur og blátt áfram. Hann hikar ekki við að segja að einhver laga hans séu leiðinleg eða drasl, en fyrst þau eru vinsæl þá er sjálfsagt að spila þau fyrir áheyrendur. Hljómplötuiðnaðurinn fékk sína sneið. Húmorinn er svo hitt, alveg hárfínn og hitti beint í mark hjá undirrituðum. Coverið af Like a Virgin, sem reyndar var snúið upp í samkynhneigð og þröng rassgöt, var óborganlega fyndið. Já, Damon er margt til lista lagt og lagasmíða og textahæfileikar hans skína í gegn. Maður bara veltir því fyrir sér hvernig hann hefði verið í liðinu hjá Manchester United ef hann hefði ekki hætt á lærlingssamningnum til að fást við tónlistina. Kannski best að hafa látið Giggs um botlann, hann jú fílar S-Club 7. En Damon hefði meikað það hvar sem er, og heimurinn er betri fyrir þessa ákvörðun hans.


* þetta er bein en ekki nákvæm þýðing á The Man with the Hat. Fer ekki út í það nánar. Annars er afgangurinn af ljóðinu þessi - Stendur upp við staur/Borgar ekki skattinn/Því hann á engan aur.