föstudagur, júlí 28, 2006

Heitt þar, sveitt þar

Fjölmenni var á velheppnuðum tónleikum Belle & Sebastian á NASA í gærkvöldi. Maður veltir fyrir sér hversu marga miða er hægt að selja inn á þennan stað, það var alveg stappað. Það hafa örugglega verið nokkur hundruð manns of mikið. Í aðra röndina skilur maður að innflytjendur vilji fá sem mest inn í kassann, en gæðin minnka líka mikið ef maður þarf allan tímann að sveiflast fram og til baka vegna fólks sem er að reyna að troða sér í gegnum þvöguna til að komast á klósettið eða á barinn. Það þarf heldur ekki mikið út að bregða til að úr verði allsherjar kaós ef eitthvað kemur upp. Hver ber þá ábyrgðina?

Tónleikarnir voru annars vel heppnaðir. Áhorfendur klöppuðu mest fyrir nýja efninu, en þó mátti heyra í nokkrum sem voru vel með á nótunum þegar gamla efnið hljómaði. Hápunktarnir: The State that I am in, Boy with the Arab strap, og Súsí sem dansaði eins og Uma í Jonathan David. Annars vísast í góða umfjöllun Dr. S. Einnig bendi ég á síðu NPR útvarsstöðvarinnar þar sem hægt er að hlusta á og hlaða niður tónleikum B&S frá því í mars sl. í heild sinni.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Lado oscuro de la Luna

Luna var hljómsveit frá New York. Eftir að hafa starfað í 14 ár kölluðu meðlimirnir það gott í febrúar 2005. Luna var stofnuð af gítarleikaranum Dean Wareham sem áður hafði verið í Galaxie 500. Auk hans voru Justin Harwood á bassa og Stanley Dameski á trommur. Þannig hljóðrituðu þeir fyrstu plötuna Lunapark. Sean Eden bættist svo við á gítar. Lee Wall tók við kjuðunum árið 1997 og Britta Phillips plokkaði bassann frá 1999. Þannig starfaði hljómsveitin til lokadags.

Ég var kynntur fyrir Luna af Mike, sænskum vini mínum, í árslok 2003 er við fórum á tónleika með þeim á Knitting Factory. Ég var strax heillaður af hljómsveitinni. Tónlistin er fáguð, fyrsta flokks indie rokk. Ekki spillti að hafa stelpu á bassanum, það virkar vel. 3ja plata sveitarinnar, Penthouse, telst líklega vera besta plata þeirra og ein af 150 bestu plötum 10. áratugsins að mati Rolling Stones. Bewitched er líka í miklu uppáhaldi hjá mér. Síðasta plata hljómsveitarinnar Rendezvous kom út haustið 2004 og í kjölfarið var farið í síðustu tónleikaferðina.

Nýlega kom út DVD diskur með heimildarmyndinni Tell Me Do You Miss Me sem fjallar um síðustu 6 mánuði í lífi Luna. Þeim er fylgt eftir frá því þau gefa út yfirlýsingu um að Luna sé að leggja upp laupana, fylgst er með lífi þeirra heima og að heiman, allt frá Japan til Arizona. Myndin gefur einstaka sýn inn í líf hljómsveitar sem á sér trygga aðdáendur um allan heim, getur selt 100 þúsund plötur, en hefur samt ekki náð heimsfrægð. Hún segir allt frá lélegum hótelum, sögum af fjandsamlegum áhorfendum, peningum (aðallega skort á þeim), fylleríum og eiturlyfjum, samskiptum innan bandsins og brjáluðum grúppíum, upp í einlæga aðdáendur sem komnir eru á lokatónleikana á Bowery Ballroom til að kveðja gamlan vin. Myndin er frábær innsýn inn í heim rokksins auk þess sem hún er verðugur minnisvarði um þessa einstöku hljómsveit.

Hér fylgja tvö tóndæmi í takmarkaðan tíma. Fyrst er það California (All The Way) af Bewitched og svo Astronaut af Rendezvous.

mánudagur, júlí 17, 2006

Hott Hott Hít

Ég fór á Siren Festival úti á Coney Island á laugar- daginn. Kannski var það blanda af spá um einn heitasta dag sumarsins (sem sem betur fer rættist ekki alveg) og andlegu áhugaleysi, en ég drattaðist ekki af stað fyrr en vel var liðið á daginn. Komst ég bara yfir að sjá tvær hljómsveitir: The Stills og Scissor Sisters.

The Stills eru enn við sama heygarðshornið. 80s skotið rokk og ról. Veit ekki hverju um var að kenna en þeir náðu fólkinu aldrei á flug. Sándið var ömurlegt, það hjálpaði ekki. Satt að segja heyrði ég varla eitt né neitt og gat því lítið dæmt um það hvernig nýja platan er. Man satt að segja ekki mikið af þeirri fyrri, svo það var kannski líka ástæða fyrir því að mér stóð á sama. Gef þeim 2 af 5 stjörnum.

Scissor Sisters var næst. Þeim hefur ekki vegnað líkt því eins vel í Bandaríkjunum eins og í Evrópu, en þau eiga samt dygga aðdáendur í sinni heimaborg, ekki síst meðal homma og lesbía sem fjölmenntu. Til að byrja með var prógrammið eitt gamalt, eitt nýtt, gamalt, nýtt, o.s.frv. Fólkið dansaði og söng með gömlu lögunum en nýja efnið fór ekki eins vel niður. Sumt af því var algjörlega öðruvísi og hálf bizzare, t.d. revíutónlist með hringekjuhljóðum og allt (sem þó var kannski viðeigandi á svona tívolísvæði). En annars hafði maður það á tilfinningunni að þau væru að endurgera fyrri plötuna, bara með veikara efni. Popplagið var þarna, diskólagið, teknólagið og ballaðan. Allt bara hálfu númeri verra en það gamla. Ég mun alla vega ekki halda í mér andanum þangað til nýja platan kemur. Gef þeim samt 3 stjörnur af 5 fyrir þennan konsert.

Að auki heyrði ég óminn af She Wants Revenge. Satt að segja var ég ekki viss hvort þetta væru í raun þeir, eða hvort DJinn væri að spila Depeche Mode, svo líkt var það. Það sem ég sé eftir var að fara ekki að sjá Stars. En það er ekki hægt að sjá allt.