fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Belle vs. Isobel


Fyrrum samstarfsfólkið í Belle and Sebastian og Isobel Campbell gáfu bæði (öll) út nýjar plötur sama dag í byrjun febrúar. Plata Belle heitir The Life Pursuit og plata Isobel heitir Ballad of Broken Seas. Þó svo hér sé kannski ekki um eiginlegt Battle of the Bands að ræða, er upplagt að fjalla um plöturnar tvær í sömu mund enda komnar af sama meiði.

Belle and Sebastian þarf líklega ekki að kynna. Þessir viðkunnalegu Skotar halda upp á 10 ára samstarf sitt um þessar mundir. Nýjasta platan þeirra er líklega sú sem beðið hefur verið eftir með mestri eftirvæntingu. Eftir ágætis gengi Dear Catastrophe Waitress eru þau enn við sama heygarðshornið en hafa vissulega haldið áfram að þróast. Þau eru ekki lengur í rólega einlæga folk-poppinu sem einkenndi þau í fyrstu, heldur komin yfir í hreinræktað gleðipopp. Greinilega á að freista þess að ná eyrum almennings sem hingað til hefur fúlsað við þeirra gersemum. Þessi plata er því full af trukki og dífu, jaðrar við fönki á köflum og seventís fílingurinn er í hávegum hafður. Ágætis framtak hjá þeim í alla staði. En samt er ég hræddur um að enn verði þau að bíða eftir þeirri viðurkenningu sem felst í góðum viðtökum tónlistarkaupenda, ekki bara gagnrýnenda.

Isobel á hinn bóginn hefur tekið allt annan pól í hæðina. Ég held hún sé ekki einu sinni að reyna að vera kommersíal, allt að því að reyna að vera antí-kommersíal. Eftir að hún yfirgaf Belle and Sebastian gaf hún út fyrstu sólóplötu sína Amorino árið 2003. Sú plata innihélt líklega 13 tónlistarstefnur í 13 lögum, allt frá dixíland til kántrís. Í þetta skiptið er það nær eingöngu kántríið sem hún fæst við ásamt Mark Lanegan, djúprödduðum sveitasöngvara sem með söng sínum allt að því fær hár manns til að rísa. Isobel fellur hins vegar betur flest annað en söngur. Það verður að segjast eins og er, Mark skyggir algjörlega á Isobel. Eftir nokkrar hlustanir er maður eiginlega farinn að óska þess að hún hefði ekkert haft sig frammi í söngnum, heldur léti Mark alfarið um það. Ég held að þessi plata verði eingöngu keypt af hörðum aðdáendum og svo nokkrum forvitnum, eins og mér.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

In The Flesh

Ætli maður verði ekki að fara að sjá Roger Waters í annað skiptið. Hið fyrra var í Berlín 1990.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Big Day Out – Sydney Janúar 2006

Þar sem að ég stóð meðal andfætlinganna. Reyndar sat ég í lest og ferðinni var heitið á Ólympíuleikvanginn í Sydney. Já þar sem Vala okkar vann góðmálm. Þar er sem sagt Big Day Out haldin árlega og nú skyldi rokkað. Í föruneytinu voru reyndar andfætlingar sem vildu sjá aðra andfætlinga spila. Fyrst til að ylja okkur með ljúfum tónum var Sarah Blasko. Eitthvað svona týpískt gellurokk sem fór fyrir ofan garð og neðan. Enda hugurinn við næsta band og bandið sem að við misstum af vegna seinagangs og samgönguörðugleika. "Offitusjúklingarnir" í Magic Numbers spiluðu án þess að bíða eftir okkur. En Go! Team mættu fersk og áttu þessar fínu 45 mínútur. Það kom reyndar á óvart að ung stúlka fer þar í broddi fylkingar ásamt einhverjum slatta af týpískum indírokkgaurum í rifnum gallabuxum. Verst var reyndar hvað hljóðið var einstaklega klént eitthvað. Einnig var mikið í gangi þarna í kring, talsverð hljóðmengun sem spillti fyrir. En þau renndu í gegnum hápunktana af debút plötunni og eitthvað nýtt slæddist þarna með. Fínir tónleikar, væri þó til í að sjá þau aftur í almennilegum sal.

Næst var rölt yfir á aðalsviðið, þar voru prestsynirnir í Kings of Leon að spila. Nennti nú ekki að fara mjög nálægt en dillaði rétt fæti með helstu slögurunum. Það kom reyndar þarna maður sem truflaði talsvert hlustunina, gaf mér símann hjá sér og vildi kynna mig fyrir einhverri búð sem að hann átti. Nóg um það.

Hér var komið að matar/drykkjuhléi og nokkrum VB slett í kokið. Eftirvæntingin var nú orðið “gríðarleg”. Franz Ferdinand næstir á svið. Undirrituðum hefur tekist að sjá þá í þremur heimsálfum á innan við hálfu ári, hmm. Grúpppía djöskotans. Asía og Suður Ameríka á planinu, ekki alveg. En strákarnir stóðu sig eins og hetjur, þétt prógram og hresst. Nánast það sama og í hin tvo skiptin þar á undan, bara fínt hjá þeim. Finnst alltaf jafnsvalt þegar það kemur einhver slatti af gaurum til að aðstoða trommarann í lokalaginu, Outside
rs.

Næst var skokkað yfir á minna svið til að heyra nokkra tóna með Mars Volta. Fæ enn óbragð í munninn þegar ég hugsa um tónleika sem einhvern tímann var farið á með þeim. Gítarrúnk og viðbjóður. Örlítið annað yfirbragð þarna, sá reyndar ekki nema 3 lög en L'Via l'Viaquez
var snilld lifandi. Iggy Popp spilaði svo I wanna be your dog fyrir okkur, eina sem við sáum en verður maður ekki að tékka á kauða í höllinni?

Nú var það bara rúsínan í enda pylsu. White Stripes stigu á stokk, sá reyndar lítið vegna fólks á háhestum þarna allt í kring. Tónlistin heyrðist þó ágætlega en mér fannst vanta einhvern neista í skötuhjúin þetta kvöldið. Tónleikarnir í höllinni voru snilld og þessir falla í skuggann af þeim. Sem sagt, stórfínn dagur úti.

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Iggy and The Stooges


Ég sá að Iggy Pop er að koma til landsins. Iggy er flottur. Helmingur ritstjórnar Músarinnar Magnúsar sá Iggy á tónleikum fyrir um 2 árum síðan. Fimmtugur kallinn hoppaði og skoppaði ber að ofan á sviðinu í klukkutíma, og fór létt með það. Reitti af sér slagara eins og I wanna be your dog, The Passenger og Lust for life. Ætli maður neyðist ekki til að leggja okurfé á reikninginn í Leynibankanum til að sjá innvígslu hans í félagsskap Íslandsvina í Höllinni í maí. Held það nú.