föstudagur, júní 08, 2007

Saga af tveimur turnum

Ég hef áður fjallað um þáttinn Later með Jools Holland sem er sýndur á BBC. Í kvöld voru gestir þáttarins m.a. Paul McCartney og Björk. Það er merkilegt að á undanförnum misserum þegar ég hef horft á þáttinn þá hafa gestir þáttarins komið frá öllum heimshornum, t.d. Mexikó, Brasilíu og ýmsum löndum Afríku, en samt aðallega Bretlandi og Bandaríkjunum. Ég hef ekki séð neina frá Hollandi, Danmörku, Ítalíu, Þýskalandi, Portúgal né Finnlandi, eða öðrum Evrópulöndum utan Bretlands ef því er að skipta. En í annað skipti á nokkrum mánuðum er þarna íslenskur flytjandi, sá fyrri var náttúrulega Sigur Rós. Jools er greinilega aðdáandi Íslands (enda sagðist hann hafa komið hingað í frí fyrir tveimur árum og líkað vel). Sannarlega Haukur í horni þar.

En ég ætlaði að tala um þáttinn í kvöld. Paul var aðal númerið eins og nærri má geta. Hann tók nokkur lög af nýju plötunni sinni. Það fyrsta sem sló mann var hversu staðnaður kallinn virtist vera. Þetta var 100% bítlapopp, bara 40 árum of seint. Textarnir voru svona nokkurn veginn "come dance with me, yeah yeah" og "I missed the train, I'll see you later, yeah yeah yeah". Æi, hvað manni fannst þetta þreytt.

Björk fékk þann heiður að vera númer 2. Hún tók 3 lög. Fyrst var Earth Intruders, þá gamalt Anchor Song. Hún endaði svo á Declare Independence, sem er áskorun á Færeyinga um að lýsa yfir sjálfstæði. Ég hef aldrei verið mikill Bjarkar aðdáandi, og verð það seint. En verð þó að segja að hún skákaði gamla kallinnum algjörlega. Skák og mát. Líflegur flutningur, hátækni hljómtæki, vel frambærileg kvenna brasssveit og alles. En það sem mér fannst samt merkilegast var að í Declare Independence þá kom Paul gamli í mynd þar sem hann sást dilla sér í takt og klappaði hressilega í lokin. Rifjaðist þá upp fyrir mér að Paul sjálfur flutti lag um sjálfstæðibaráttu á sínum mektar árum. Hann hvatti þá Norður Íra til að lýsa yfir sjálfstæði, eða réttara sagt Englendinga (og Skota og Welsara) til að leysa þá undan sínu einoki í laginu "Give Ireland back to the Irish". En þótt Paul hafi horfið af þeirri pólitísku braut og söngli nú bara texta sem ekki einu sinni Nylon myndi dirfast að flytja (jafnvel þótt þeirra markhópur séu 10-14 ára stelpur), þá er maður þó alla vega stoltur af því að vita að Björk muni aldrei leggjast svo lágt. Já, það eru enn til listamenn sem standa fast á sínu. Hið besta mál.