föstudagur, apríl 28, 2006

Rokkarnir þagna ekki

Ég hef áður hér á þessari síðu sagt frá uppáhalds plötubúðinni minni. Rocks in your Head heitir hún og er á Prince Street í Soho, New York. Ég leit þangað inn í dag og þá voru starfsmennirnir í óða önn að pakka saman plötunum og geisladiskunum. Þeir hafa misst leigusamninginn og eru að flytja búðina út í Williamsburg. Það var ákveðin mæða á andlitinu á þeim enda hafa þeir verið þarna síðan 1978, löngu áður en Soho varð svona hip og cool sem varð svo til þess að þeir þrifust þar ekki lengur.

Það var gott að vera fastur viðskiptavinur í Rocks in your Head, þó svo síðustu mánuði hafi ég komið sjaldnar og sjaldnar, skiljanlega þar sem ég er fluttur úr borginni. Fastir viðskiptavinir nutu fríðinda. Við gátum keypt diska áður en þeir komu út. Svo framarlega sem þeir voru komnir í hús voru þeir afgreiddir með hush hush augnliti framhjá búðarborðinu þó svo opinberlega mátti ekki selja þá fyrr en mörgum dögum síðar. Þá var þetta búð þar sem ég uppgötvaði margar nýjar hljómsveitir, eftir ábendingar frá starfsmönnum, eða vegna útstillinga á diskunum. Þegar ég spurði hvernig þessi Interpol diskur væri því albúmið vakti athygli mína (það var löngu áður en þeir urðu svona frægir), fékk ég svarið: "eins og David Byrne að syngja með Joy Division". Auðvitað keypti maður diskinn og sá ekki eftir því. Margar aðrar sögur get ég sagt. Eitt sinn var ég í búðinni þegar inn kom virðuleg kona og spurði eftir einhverju eins og Britney, Shakira eða álíka. Kallinn bara hristi hausinn, setti upp svona "fyrirgefðu" svip, sem var eiginlega meira svona "þú ert hálfviti" svipur, og sagði að svona væri ekki til og yrði aldrei selt þarna.

Ég á eftir að sakna Rocks in your Head því ég efast um að ég eigi eftir að fara oft í Williamsburg að versla hjá þeim. En ef þú átt leið til NY skaltu endilega hafa uppi á þeim í Williamsburg, betri plötubúð finnuru varla.